Börn sem hafa netaðgang heima hjá sér og eiga foreldra sem nota Netið oft, eru líklegri til að nota Netið sjálf daglega og öðlast meiri færni.
Börn sem hafa netaðgang heima hjá sér og eiga foreldra sem nota Netið oft, eru líklegri til að nota Netið sjálf daglega og öðlast meiri færni. — Morgunblaðið/Sverrir
Í NÝRRI breskri rannsókn fræðimanna við The London School of Economics and Political Science kemur í ljós að vankunnátta foreldra þegar kemur að notkun Netsins getur haft neikvæð áhrif á menntun barna og jafnvel framtíðarhorfur þeirra á vinnumarkaði.

Í NÝRRI breskri rannsókn fræðimanna við The London School of Economics and Political Science kemur í ljós að vankunnátta foreldra þegar kemur að notkun Netsins getur haft neikvæð áhrif á menntun barna og jafnvel framtíðarhorfur þeirra á vinnumarkaði. Um 1.500 börn á aldrinum 9 til 19 ára tóku þátt í rannsókninni, auk rúmlega 900 foreldra og m.a. kom í ljós að börn sem hafa netaðgang heima hjá sér og eiga foreldra sem nota Netið oft, eru líklegri til að nota Netið sjálf daglega og öðlast meiri færni.

Netlæsi er nauðsynlegt, að mati fræðimannanna, m.a. vegna þess að færni á Netinu hefur bein áhrif á tækifæri til fræðslu.

Rannsóknin bendir á bilið á milli skilnings foreldra og barna á netnotkun og leggja fræðimennirnir áherslu á að það bil verði brúað með frekari rannsóknum, leiðbeiningum og stefnumótun.

Bent er á að ekki ætti að takmarka tækifæri barna og unglinga til að fara á Netið þrátt fyrir að netnotkun fylgi áhætta. Aukin tækifæri til netnotkunar auka vissulega áhættuna, en áhugi foreldra og eftirfylgni getur verndað börnin en aukið skilning þeirra og færni. Foreldrar sem lítið kunna á Netið þurfi leiðbeiningar og fræðslu.

Vefsíður ætti að hanna m.t.t. þess að auka netlæsi barna og unglinga. Bent er á að óheppilegt sé að sumir vefir biðji um persónuupplýsingar þrátt fyrir að mörgum börnum sé af foreldrum sínum bannað að gefa slíkt upp á Netinu. Þetta getur valdið því að börnin verða tvístígandi, nýti ekki möguleika Netsins til fulls og þrói ekki með sér gagnrýna netnotkun.