ÍSLANDSBANKI sölutryggði í liðinni viku fjögurra milljarða skuldabréfaútboð fyrir Aker Seafoods í Noregi.

ÍSLANDSBANKI sölutryggði í liðinni viku fjögurra milljarða skuldabréfaútboð fyrir Aker Seafoods í Noregi. Markaðsviðskipti Íslandsbanka luku á mánudaginn sölu bréfanna til nær 20 íslenskra stofnanafjárfesta en með skiptisamningi við Íslandsbanka fær útgefandinn 400 milljónir norskra króna til fimm ára. Skuldabréfaflokkurinn er verðtryggður og verður skráður í Kauphöll Íslands.

Fram kemur í tilkynningu frá Íslandsbanka að Aker Seafoods hafi einnig samið við bankann og DnB NOR um endurfjármögnun samstæðunnar upp 1,3 milljarða norskra króna. Auk skuldabréfaútboðsins mun DnB NOR veita Aker veðlán upp á 800 milljónir norskra króna til tíu ára og ábyrgðar- og rekstrarlán upp á um 100 milljónir norskra króna.

Aker Seafoods varð til við sameiningu Norway Seafoods, West Fish-Aarsæther og Nordic Sea Holding enAker er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki í Evrópu í veiðum, vinnslu og sölu á hvítfiski.