Guðbjörg Gissurardóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarvettvangs.
Guðbjörg Gissurardóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarvettvangs.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við Íslendingar eigum mikið af hæfileikaríku fólki á ýmsum sviðum. Þar á meðal eru hönnuðir sem á síðustu áratugum hafa hannað allt frá fallegum smáhlutum til glæsilegra bygginga.

Við Íslendingar eigum mikið af hæfileikaríku fólki á ýmsum sviðum. Þar á meðal eru hönnuðir sem á síðustu áratugum hafa hannað allt frá fallegum smáhlutum til glæsilegra bygginga. Á síðustu árum hefur fatahönnun verið mjög áberandi og augljóst að mikill kraftur er í ungum hönnuðum á Íslandi.

Það var því löngu tímabært að setja á fót einhvers konar vettvang fyrir þessa gróskumiklu stétt.

Fyrir ári tók ríkið þá ákvörðun að stofna samstarfsvettvang um hönnun og í maí síðastliðnum var loks farið af stað af fullum krafti.

Að verkefninu standa iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Samtök iðnaðarins, Útflutningsráð Íslands, Iðntæknistofnun, Reykjavíkurborg og Form Ísland, félag faghönnuða. Verkefnið er til þriggja ára og verður sjö milljónum króna varið í það ár hvert.

Guðbjörg Gissurardóttir, grafískur hönnuður og framkvæmdastjóri verkefnisins, segir hugmyndina hafa verið lengi í pípunum og að margir hafi komið að henni.

Markmið samstarfsvettvangsins er að þróa og efla ímynd íslenskrar hönnunar ásamt því að koma á fót sameiginlegum gagnagrunni upplýsinga og veita hönnuðum innblástur og stuðning.

Við viljum ekki kalla þetta miðstöð fyrr en nægilegt fjármagn fæst til að halda úti alvöru miðstöð. Eins og stendur dekkar fjármagnið einungis mín laun og eitthvað örlítið meira," segir Guðbjörg.

Það er því ekki ólíklegt að leitað verði til einkaaðila um að styrkja einstök verkefni til að hjálpa miðstöðinni af stað.

Ísland hefur enga ákveðna hönnunarímynd segir Guðbjörg og þegar skilgreina á íslenska hönnun er fátt um svör. Guðbjörg telur það ákveðinn kost því Ísland er ungt og ómótað land á ýmsum sviðum. Í stað þess að negla niður einhverja ákveðna skilgreiningu vill Guðbjörg frekar koma á framfæri hinum mikla sköpunarkrafti Íslendinga. Það er tvennt sem hún vill setja í forgrunn við kynningu á íslenskri hönnun; kraftinn og náttúruna.

"Við höfum ekki langa byggingar- eða listasögu eins og aðrar þjóðir en á hinn bóginn höfum við náttúruna og hönnuðir leita í hana bæði meðvitað og ómeðvitað," segir Guðbjörg.

Svo virðist sem hönnunarstefna stjórnvalda sé engin en þó var þingsályktunartillaga samþykkt á Alþingi nýverið sem gerir sendiráðum Íslands skylt að velja íslenska hönnun fram yfir aðra þegar verið er að byggja eða gera upp sendiráð erlendis. Guðbjörg segir að nú þegar séu þónokkur sendiráð að kaupa íslenska hönnun en einnig séu þau mörg sem ekki hafa sett hana í forgang.

Hönnun getur gert heilmikið fyrir framþróun og efnahag landsins og því er mikilvægt að stjórnvöld geri sér grein fyrir ávinningnum og marki skýra stefnu landsins í þessum málum.

"Fólk er að verða meðvitaðra um hönnun. Það vill ekki lengur bara einhvern farsíma heldur flottan og vel hannaðan farsíma," segir Guðbjörg.

Verkefnaskrá Hönnunarvettvangsins er löng og í mörg horn að líta þegar á að setja á stofn virka og gagnlega miðstöð. Sérstakur áhugi er fyrir því að styðja við bakið á hönnuðum sem vilja koma vöru sinni í framleiðslu og á framfæri. Gagnagrunnurinn er einnig mikilvægur til að miðla reynslu og þekkingu.

17. til 19. nóvember næstkomandi verður haldið hátíðlega upp á Hönnunardaga en í ár er norrænt hönnunarár. Hátíðin mun standa saman af þátttöku hönnuða og framleiðenda í sýningarhaldi og ýmsum uppákomum en jafnframt mun Hönnunarvettvangurinn standa fyrir ráðstefnu þar sem bæði erlendir og íslenskir fyrirlesarar koma fram. Leitað verður eftir styrkveitingu frá stjórnvöldum og einkaaðilum svo hægt verði að gera Hönnunardagana sem veglegasta.

Það er augljóslega mikil eftirvænting hjá hönnuðum að sjá miðstöðina fæðast og Guðbjörg vill vinna verkefnið í góðri samvinnu við þá til að bestu leiðirnar séu ávallt farnar.

Hönnun er list og okkur sem þjóð ber skylda til að styrkja hana, efla og kynna. Með Hönnunarvettvanginum er kominn grundvöllur fyrir kröftuga stétt að efla ímynd sína og kynna enn frekar verk sín fyrir almenningi hérlendis sem og erlendis. Það eru því spennandi tímar fram undan.

valaosk@mbl.is