Landbúnaðarráðherra var ekki talinn vanhæfur til að skipa rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.
Landbúnaðarráðherra var ekki talinn vanhæfur til að skipa rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. — Morgunblaðið/Þorkell
Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.
Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.is

LANDBÚNAÐARRÁÐHERRA var ekki vanhæfur til þess að skipa rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri vegna persónulegra vinatengsla við þann sem skipaður var, í gegnum sameiginlegan áhuga þeirra á íslenska hestinum, að því er fram kemur í nýju áliti Umboðsmanns Alþingis hér að lútandi.

Í kvörtun A vegna skipunar B í embættið er vísað til blaðagreinar þar sem haft var eftir ráðherra að B væri "ágætur vinur" sinn og að hann ætti marga aðra vini og kunningja í hópi umsækjenda. Segir umboðsmaður að þessi yfirlýsing gæfi ekki ein og sér tilefni til að draga óhlutdrægni ráðherra í efa og það leiddi ekki til vanhæfis að starfsmaður hefði sömu áhugamál og málsaðili og að þeir kynnu af þeim sökum að hafa umgengist hvor annan.

Í kvörtuninni var einnig fundið að rökstuðningi ráðherra fyrir ákvörðuninni og að ekki hefði verið gætt að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Frammistaða í starfsviðtölum

Segir umboðsmaður að rökstuðningur ákvörðunarinnar bendi til þess að hún hafi byggst á mati á ýmsum þáttum, en sérstök áhersla virðist hafa verið lögð á framtíðarsýn umsækjenda fyrir íslenskan landbúnað, hvernig skólinn gæti sem best þjónað atvinnugreininni, og hvernig standa ætti að samþættingu þeirra þriggja stofnana sem mynduðu skólann. Lægi fyrir að ályktun um þessi atriði hefði byggst á frammistöðu umsækjenda í starfsviðtölum. Slík viðtöl gætu varpað ljósi á ýmis atriði í þessum efnum, en taka yrði mið af lagakröfum við framkvæmd slíkra viðtala svo sem hvað varðaði skráningu þess sem fram kæmi í viðtölunum. Taldi umboðsmaður í það heila tekið "að landbúnaðarráðherra og ráðuneyti hans hefðu ekki fært fram nægar upplýsingar til staðfestingar á því að svör umsækjenda í starfsviðtölum hefðu upplýst nægilega þau atriði sem ætlunin var að byggja á við ákvörðunartöku í málinu. Ekki væri því unnt að leggja mat á hvort rannsókn á starfshæfni umsækjenda hefði að þessu leyti uppfyllt þær kröfur sem leiða af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga."

Umboðsmaður beindi jafnframt þeim tilmælum til landbúnaðarráðherra að taka beiðni A um að ákvörðunin yrði rökstudd til athugunar á ný ef hún óskaði eftir því og taka mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu. Taldi hann "að öðru leyti óljóst hvaða réttaráhrif þeir annmarkar sem hann taldi að væru á undirbúningi ákvörðunarinnar ættu að hafa gagnvart einstökum umsækjendum."