Marteinn Guðjónsson fæddist í Vestmannaeyjum 7. maí 1924. Hann lést 30. maí síðastliðinn og var útför hans gerð frá Landakirkju 3. júní.

Kveðja frá Golfklúbbi Vestmannaeyja

Við viljum í fáum orðum minnast okkar góða félaga Marteins Guðjónssonar sem lést hinn 30. maí sl.

Marteinn gerðist félagi í Golfklúbbi Vestmannaeyja á sjöunda áratugnum, á þeim tímum er vinna við hirðu og rekstur vallarins var að mestu unnin í sjálfboðavinnu af klúbbfélögum. Marteinn var klúbbnum mikill happafengur og eru ófáar vinnustundirnar sem hann lagði fram í sjálfboðavinnu við að gera golfvöllinn okkar í Herjólfsdal jafn fallegan og raun ber vitni. Vélakostur var ekki alltaf sá fullkomnasti en Marteinn lagði mikla vinnu í að halda vélum við og er ekki á nokkurn hallað er sagt er hann hafi verið manna snjallastur að láta vélar ganga og með duglegri mönnum í hirðu golfvallarins. Marteinn tók virkan þátt í því að hreinsa völlinn eftir gos og var hann forkólfur þess að gera bráðabirgðagolfvöll uppi við Sæfell meðan hann og aðrir félagar í Golfklúbbnum unnu það þrekvirki að hreinsa völlinn í Herjólfsdal undan vikri eftir gos á Heimaey árið 1973. Marteinn tók upphafshöggið á "Sæfellsvellinum" hinn 11. apríl 1974. Marteinn var formaður klúbbsins á árunum 1974 og 1980. Marteinn náði fljótt góðum tökum á golfinu og var ágætur kylfingur og náði meðal annars að komast í íslenska öldungalandsliðið og keppti fyrir Íslands hönd. Marteinn spilaði golf af kappi þar til hann veiktist alvarlega árið 1999, þá 75 ára að aldri. Ekki er hægt að fjalla um Martein án þess að minnast á hans hægri hönd, konu hans Kristínu Einarsdóttur, Stínu, en hún var honum stoð og stytta alla ævi. Til marks um hug Marteins og Stínu til klúbbsins þá tóku þau aldrei annað í mál eftir veikindi Marteins en að greiða félagsgjöld til klúbbsins og hafa gert alveg til dagsins í dag.

Um leið og við kveðjum Martein og þökkum góðar samverustundir og fórnfúst starf á Golfvellinum í Herjólfsdal vottum við Kristínu og fjölskyldu okkar dýpstu samúð, minningin um góðan félaga lifir á golfvellinum í Herjólfsdal.

F.h. Golfklúbbs Vestmannaeyja,

Haraldur Óskarsson.