Atriði úr mynd Ólafs: Arnar Björnsson íþróttafréttamaður undirbýr sig fyrir viðtal við þjálfara knattspyrnuliðsins Africa United, Zico Zakaria.
Atriði úr mynd Ólafs: Arnar Björnsson íþróttafréttamaður undirbýr sig fyrir viðtal við þjálfara knattspyrnuliðsins Africa United, Zico Zakaria.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÓLAF Jóhannesson kvikmyndagerðarmann hafði alltaf langað til að gera mynd um fótbolta. Mynd hans Africa United fjallar einmitt um samnefnt fótboltalið í þriðju deildinni hérlendis en liðið samanstendur af leikmönnum frá meira en tíu löndum.

ÓLAF Jóhannesson kvikmyndagerðarmann hafði alltaf langað til að gera mynd um fótbolta. Mynd hans Africa United fjallar einmitt um samnefnt fótboltalið í þriðju deildinni hérlendis en liðið samanstendur af leikmönnum frá meira en tíu löndum. Eins og greint var frá í blaðinu í gær hefur honum verið boðið að sýna þessa heimildamynd í aðalkeppninni á hinni þekktu kvikmyndahátíð í Karlovy Vary í Tékklandi.

"Mig langaði alltaf að gera mynd um fótbolta og í áranna rás hef ég séð margar lélegar myndir um þennan fallega leik. Í staðinn fyrir að taka þá áhættu að auka við eymdina ákváðum við, ég og félagar mínir, Ragnar Santos og Benedikt Jóhannesson, að finna raunverulegt fótboltalið og sjá hlutina gerast í alvöru á tjaldinu," segir Ólafur.

"Fótbolti er birtingarmynd einfaldleikans en mennirnir gera hann, eins og lífið, flókinn og margbrotinn. Persónurnar í myndinni minni, Africa United , eru komnar á fremsta hlunn með að flækja líf sitt um of. Nálgun þeirra er mjög frábrugðin hinu staðfasta, evrópska hugarfari. Leiði þeir leikinn munu þeir sigra, einu marki undir og þeir eru svo til dæmdir til að tapa. Þá skortir evrópska þrautseigju en búa aftur á móti yfir barnslegri einlægni í nálgun sinni á fótbolta og lífið," segir hann.

"Meðlimir Africa United eru innflytjendur sem vinna við ýmis láglaunastörf í Reykjavík eða eru jafnvel atvinnulausir. Líf þeirra er mótað af baráttu innflytjenda á nýjum slóðum; tungumálavandræði, viðureignir við yfirvöld, peningamál, svo ekki sé minnst á íslenska veðráttu," útskýrir Ólafur og bætir við að þess vegna sé Africa United miklu meira en fótboltalið.

"Leikmennirnir trúa því og vona að ef þeim gangi vel í fótbolta muni velgengnin speglast inn í líf þeirra, færa þeim virðuleik og sjálfstraust sem hafi aftur í för með sér gott líf," segir hann og útskýrir að myndin sé að grunni til einföld saga um von um að ná árangri og njóta virðingar.

"Á undanförnum árum hafa margar myndir verið sýndar sem fjalla um innflytjendur í Evrópu. Venjulega er lögð áhersla á hversu erfitt líf þeirra sé. Mig langaði í þessari mynd að einblína á jákvæðu hliðarnar og þær eingöngu. Fyrst og fremst á að vera skemmtilegt og hressandi að horfa á myndina. Hlýju og innileik er nefnilega vel hægt að troða inn um þær dyr," segir leikstjórinn.