SAMKVÆMT könnun Brautarinnar, bindindisfélags ökumanna, eru fæst þeirra reiðhjóla sem eru til sölu á höfuðborgarsvæðinu með tilskilinn öryggisbúnað. Um 47% reiðhjólanna stóðust ekki reglugerð og voru þó bjalla og lás undanskilin í könnuninni..

SAMKVÆMT könnun Brautarinnar, bindindisfélags ökumanna, eru fæst þeirra reiðhjóla sem eru til sölu á höfuðborgarsvæðinu með tilskilinn öryggisbúnað. Um 47% reiðhjólanna stóðust ekki reglugerð og voru þó bjalla og lás undanskilin í könnuninni.. Alvarlegast þótti að um 11% hjólanna voru án framhemla. Einar Guðmundsson hjá Brautinni telur alvarlegt að hvorki Umferðarstofa, Löggildingarstofa né lögregla telji sig þurfa að sinna eftirliti með að reglugerðin sé virt.

Í reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla frá 1994 segir ma. að reiðhjól skuli hafa hemla við fram- og afturhjól. Þá skuli hjól hafa rautt endurskinsmerki að framan og hvítt að aftan, á fótstigum og í teinum skuli sömuleiðis vera endurskinsmerki. Samkvæmt reglugerðinni eiga öll hjól einnig að vera með keðjuhlíf, bjöllu og lás. Könnunin var gerð í níu verslunum sem selja reiðhjól og kom í ljós að ekkert hjólanna var með allan skyldubúnað. Á flest hjólin vantaði bjöllu og lás og þar sem þessi búnaður er yfirleitt keyptur sérstaklega var hann undanskilinn í könnuninni.

Einar Guðmundsson sagði að það sem ylli mestum áhyggjum væri að 11% reiðhjóla væru seld án framhemla. Talið væri að um 60-75% hemlunar væru jafnan á framhjóli og því beinlínis varasamt að hjóla um á hjóli án framhemla.