SKILNAÐATÍÐNI er afar lág hér á landi í samanburði við hin Norðurlöndin að því er kemur fram í frétt frá Hagstofu Íslands. Hæst er hún í Danmörku, 2,8 af 1.000 íbúum, en annars staðar utan Íslands 2,3-2,6.

SKILNAÐATÍÐNI er afar lág hér á landi í samanburði við hin Norðurlöndin að því er kemur fram í frétt frá Hagstofu Íslands. Hæst er hún í Danmörku, 2,8 af 1.000 íbúum, en annars staðar utan Íslands 2,3-2,6. Að sögn Ólafar Garðarsdóttur, deildarstjóra mannfjöldadeildar Hagstofu Íslands, var skilnaðatíðnin svipuð á Norðurlöndunum upp úr 1960 og fór hækkandi. "Hún hækkaði þó ekki jafn mikið á Íslandi og annars staðar og hættir í raun og veru að hækka um 1980 og hefur staðið í stað síðan þá," segir Ólöf en hún telur að innan við 40% hjónabanda hafi endað með skilnaði hér á landi síðastliðin 15 ár.

Giftingatíðni hér á landi er álíka há og í Noregi og Finnlandi. Af Norðurlöndunum er hún langhæst í Danmörku (nær 7 af 1.000 íbúum) en lægst í Svíþjóð (um 4 af 1.000 íbúum). Í ljósi þess að giftingatíðni í Danmörku er hæst á Norðurlöndum kemur ekki á óvart að skilnaðatíðni þar sé einnig hæst. Í þessu sambandi er ljóst að á Íslandi enda mun færri hjónabönd með skilnaði en í nágrannalöndunum. "Sé þetta skoðað með hliðsjón af giftingatíðninni sést að hún er lægst í Svíþjóð en samt sem áður er skilnaðatíðnin mun hærri en á Íslandi," segir Ólöf.

Sveiflur í giftingatíðni

Í frétt Hagstofunnar segir jafnframt að skilnaðatíðni hér á landi hafi verið háð mun minni sveiflum en giftingatíðni á undanförnum 20 árum. Við upphaf 7. áratugarins var skilnaðatíðni 1 af hverjum 1.000 íbúum en hækkaði ört á 7. og 8. ártugnum. Við upphaf 9. áratugarins var skilnaðatíðni orðin 2 af 1.000 íbúum en síðan þá hafa engar breytingar orðið á skilnaðatíðni. Giftingatíðni hefur hins vegar verið háð allmiklum sveiflum á undanförnum áratugum. Lægst varð hún á árunum í kringum 1990 en þá féll hún niður fyrir 5 af 1.000 íbúum. Giftingatíðni hefur hækkað nokkuð síðan þá en mesta fjölgun hjónavígslna varð á síðustu 3 árum 20. aldarinnar.

Langflest hjónabönd eiga sér stað að undangenginni óvígðri sambúð. Tíðasti giftingaraldur ókvæntra karla var 30 ár á árinu 2004 samanborið við 21 ár á árabilinu 1961-1965 og ógiftra kvenna 27 ár samanborið við 19 ár á árabilinu 1961-1965.