Clint Eastwood
Clint Eastwood
BANDARÍSKA kvikmyndafyrirtækið Warner Brothers og fyrirtæki Stevens Spielberg, Dreamworks, hafa valið íslenska framleiðslufyrirtækið True North, sem þjónustuaðila sinn hér á landi við tökur á kvikmyndinni Flags of our Fathers , í leikstjórn Clints...

BANDARÍSKA kvikmyndafyrirtækið Warner Brothers og fyrirtæki Stevens Spielberg, Dreamworks, hafa valið íslenska framleiðslufyrirtækið True North, sem þjónustuaðila sinn hér á landi við tökur á kvikmyndinni Flags of our Fathers , í leikstjórn Clints Eastwood.

Að sögn Helgu Margrétar Reykdal, framleiðslustjóra hjá True North, munu tökur á myndinni hefjast á Íslandi 12. ágúst og mun ljúka í september en tökustaðir hafa ekki ennþá verið valdir. Aðalástæðan fyrir því að Eastwood og Spielberg völdu Ísland er að sögn svartar sandstrendurnar sem hér finnast og má því leiða líkum að því að allar svartar strendur séu til skoðunar.

Kvikmyndin er byggð á samnefndri metsölubók James Bradley og fjallar um einn frægasta bardaga seinni heimsstyrjaldarinnar á eyjunni Iwo Jima í Kyrrahafi.

Helga segir að þau hjá True North séu að vonum ánægð með að hafa hreppt verkefnið enda verði það eitt af þeim viðameiri sem hér hafi verið unnin. Ekki liggur ennþá fyrir hvaða stjörnur munu fara með helstu hlutverk í myndinni eða að hve miklu leyti þær munu taka þátt í tökunum hér á landi.