GUÐJÓN Þórðarson, knattspyrnustjóri enska 3. deildar liðsins Notts County, bíður óþreyjufullur eftir að leikmenn hans snúi aftur til æfinga 27. júní næstkomandi.

GUÐJÓN Þórðarson, knattspyrnustjóri enska 3. deildar liðsins Notts County, bíður óþreyjufullur eftir að leikmenn hans snúi aftur til æfinga 27. júní næstkomandi. Guðjón ætlar sér stóra hluti og hefur nú þegar lagt línurnar fyrir komandi tímabil þar sem mikill agi mun ríkja. Hann stendur einnig í stórræðum í leit að leikmönnum til að styrkja liðið en ekkert hefur verið ákveðið í þeim efnum.

Leikmenn geta farið sinn veg ef þá lystir, geta gert hlutina á sinn hátt, en ljóst er að þeim mun ekki líka hvar sá vegur endar," segir Guðjón í viðtali við Nottingham Evening Post . "Agi er mikilvægur og ef einhver fer yfir strikið mun hann fá að vita af því og gerir það ekki á nýjan leik. Leikmenn verða að vita hver ræður og það getur aðeins verið einn stjóri," bætir hann við og er staðráðinn í því að ná fram því besta úr leikmönnum Notts County.

"Markmiðið er að ná sem bestum árangri með það lið sem ég hef undir höndum. Vonandi mun það þýða að við komumst upp um deild en ég ætla ekki að spá fyrir um neitt á þessari stundu."

Rólegur í leikmannamálum

Guðjón er þessa stundina að leita eftir leikmönnum og kom meðal annars hingað til lands í könnunarferð. Enginn hefur þó enn verið fenginn til liðsins en Guðjón er staðráðinn í að finna rétta leikmenn fyrir liðið.

"Það er mjög auðvelt að krækja í leikmenn og ég gæti þess vegna fengið leikmann til liðsins þess í dag.

Hins vegar er erfiðara að losna við þá þegar maður áttar sig á að þeir standast ekki kröfur og mistök hafa verið gerð," segir Guðjón og játar að hann flýti sér hægt í leikmannamálum, af nógu verði að taka þegar líða tekur á sumarið og ljóst er að margir verði án félags þegar leiktíðin hefst.

Ástand manna við upphaf æfinga mun segja margt

Eins og áður er ritað mæta leikmenn Notts County til æfinga 27. júní og Guðjón veit vart hvað bíður hans.

"Ég veit ekki í hvaða ástandi leikmennirnir mæta eða hvernig manneskjur þeir eru. En ástand þeirra mun segja mér mikið. Gott líkamsástand verður einn mikilvægasti þáttur fyrir næstu leiktíð og það verða engar afsakanir ef menn geta ekki leikið 90 mínútur á fullum hraða. Ef leikmenn ráða ekki við það eru þeir mér gagnslausir," segir Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Notts County og slær hvergi af kröfunum í viðtali við Nottingham Evening Post.