Páll Bergþórsson
Páll Bergþórsson
Frá Páli Bergþórssyni: "Í RITDÓMI í Mbl. um nýútkomna Nýja Íslandssögu fer sagnfræðingurinn Jón Þ. Þór heldur ómildum orðum um tilvitnanir höfunda í nýlegar rannsóknir á sögu Íslands. Að svo miklu leyti sem ég get um þetta borið hlýt ég að vera sammála Jóni."

Í RITDÓMI í Mbl. um nýútkomna Nýja Íslandssögu fer sagnfræðingurinn Jón Þ. Þór heldur ómildum orðum um tilvitnanir höfunda í nýlegar rannsóknir á sögu Íslands. Að svo miklu leyti sem ég get um þetta borið hlýt ég að vera sammála Jóni. Þar á ég við stutta umfjöllun bókarinnar um fund Vínlands. Höfundarnir virðast taka alvarlega túlkun amerískra fornleifafræðinga sem styðjast nær eingöngu við frásagnir Grænlendinga sögu af leiðum Vínlandsfara en sniðganga að mestu Eiríks sögu rauða. Ólafur Halldórsson hefur þó fyrir aldarfjórðungi sýnt fram á að Eiríks saga rauða er síst ómerkari heimild en Grænlendinga saga, og ég veit ekki betur en að sú ályktun hans sé almennt viðurkennd hér á landi. En þessir bandarísku höfundar hafa þá afsökun að þeir kunna ekki íslensku og hafa því ekki lesið þá ágætu bók Ólafs, Grænland í miðaldaritum. Þetta gerbreytir hugmyndum um ferðir Þorfinns karlsefnis, og mér sýnist að flestir fallist nú á hugmyndir í bók minni Vínlandsgátunni um dvalarstaði hans við Fundyflóa og í New York, eða að minnsta kosti þar í grennd. Sú ályktun fær reyndar að nokkru leyti góðan stuðning í frásögn íslensks annáls af Vínlandsferð Eiríks upsa Gnúpssonar Grænlandsbiskups og merkilegum norskum peningi sem fannst í austasta fylki Bandaríkjanna, en ætla má að þangað hafi hann borist úr ferð Eiríks. Þessa heimild annálsins virðast amerísku fornleifafræðingarnir ekki heldur þekkja eða vilja viðurkenna.

Að þessu athuguðu verður skiljanlegt hversu óvandaðar og vafasamar eru þær teikningar af leiðum Vínlandsfara sem sýndar eru í þessari Nýju Íslandssögu, svo ekki sé meira sagt.

PÁLL BERGÞÓRSSON,

veðurfræðingur og rithöfundur.

Frá Páli Bergþórssyni:

Höf.: Páli Bergþórssyni