SKAGAMENN voru fyrstir til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Visa-bikarkeppni karla í knattspyrnu en Akurnesingar mörðu 3. deildarlið Gróttu á Nesinu í gærkvöld, 2:1.

SKAGAMENN voru fyrstir til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Visa-bikarkeppni karla í knattspyrnu en Akurnesingar mörðu 3. deildarlið Gróttu á Nesinu í gærkvöld, 2:1.

Það var Unnar Valgeirsson sem skaut ÍA áfram í keppninni þegar hann skoraði sigurmarkið fáeinum mínútum fyrir leikslok. Skagamenn komust yfir með sjálfsmarki Gróttumanna í upphafi leiks en gamli markvarðarhrellirinn Ómar Bendtsen jafnaði fyrir 3. deildarliðið.

"Þetta var ansi mikið basl en við gerðum okkur erfitt fyrir með lélegri nýtingu á færunum. Það stefndi allt í framlengingu en sem betur fer náði Unnar að skora og við gátum því andað léttar. Gróttumenn veittu okkur harða keppni en við vorum langt frá því að vera sannfærandi," sagði Gunnlaugur Jónsson, fyrirliði ÍA, við Morgunblaðið eftir leikinn. ÍA féll úr leik í 32-liða úrslitum bikarsins í fyrra fyrir HK, þá sem ríkjandi bikarmeistarar.

Leik Gróttu og ÍA var flýtt vegna þátttöku ÍA í Intertoto-keppninni en Skagamenn mæta finnska liðinu Inter-Turku og fer fyrri leikurinn fram ytra hinn 19. júní