Kári Árnason í baráttu við leikmenn Ungverja á Laugardalsvellinum á laugardaginn. Kári átti góða innkomu í þeim leik.
Kári Árnason í baráttu við leikmenn Ungverja á Laugardalsvellinum á laugardaginn. Kári átti góða innkomu í þeim leik. — Morgunblaðið/Golli
VIÐ teljum að þjálfari Möltu muni leggja á það áherslu að "pakka" í vörn eftir 6:0 tap liðsins gegn Svíum á dögunum. Þeir munu eflaust leika með 6 manna vörn, 3 á miðjunni þar fyrir framan og 1 framherja.

VIÐ teljum að þjálfari Möltu muni leggja á það áherslu að "pakka" í vörn eftir 6:0 tap liðsins gegn Svíum á dögunum. Þeir munu eflaust leika með 6 manna vörn, 3 á miðjunni þar fyrir framan og 1 framherja. Það verður því mikilvægt að brjótast upp vængina og koma með fyrirgjafir gegn þessari vörn og í raun skiptir það engu máli hvort við skorum 1 eða 3 mörk. Það eina sem skiptir máli er að ná í stigin þrjú sem í boði eru," segir Ásgeir Sigurvinsson, þjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson seth@mbl.is

Ísland mætir Möltu í undankeppni heimsmeistaramótsins á Laugardalsvelli kl. 18:05 í kvöld en liðin gerðu markalaust jafntefli á Möltu í fyrri leiknum og eru það einu stig liðanna fram til þessa í keppninni.

Ásgeir segir að Malta hafi leikið með tvo framherja í 4:4:2 gegn Svíum og það hafi ekki gengið vel hjá þeim. "Við sáum æfingu hjá þeim á þriðjudaginn og það mun alls ekki koma okkur á óvart ef þeir stilla upp 9 mönnum rétt utan við vítateiginn og með 1 framherja. Þeir hafa tvívegis tapað stórt gegn Svíum áður en þeir mæta okkur og í fyrri leiknum á Möltu var varnarmúr þeirra öflugur."

Þjálfarinn vildi ekki gefa upp líklegt byrjunarlið en ljóst er að Auðun Helgason varnarmaður FH verður í bakvarðastöðunni hægra megin, og Stefán Gíslason frá Lyn verður miðvörður. En allir fjórir varnarmenn íslenska liðsins frá því í leiknum gegn Ungverjum verða frá vegna leikbanna og meiðsla.

"Ég held ég hafi aldrei upplifað annað eins á mínum ferli hvað varðar meiðsli leikmanna, eins og ástandið var í leiknum gegn Ungverjum s.l. laugardag. Við vorum með slasaða leikmenn á hlaupabrautinni allan fyrri hálfleikinn og skiptum þremur útaf í fyrri hálfleik. Ég á því ekki von á því að leikurinn gegn Möltu í kvöld verði með svipuðu sniði. Þetta hlýtur að hafa verið einstakt tilvik."

Ásgeir telur að sá baráttuandi sem einkenndi liðið gegn Ungverjum verði áfram til staðar enda séu margir ungir leikmenn í hópnum sem séu ákafir og vilja sanna sig. "Við vorum mjög ánægðir með þann anda sem var í liðinu s.l. laugardag. Það voru allir að leggjast á eitt að vinna saman. Leikmenn liðsins skiluðu því sem þeir gátu og ég hef það á tilfinningunni að liðið verði tilbúið í átökin. En við verðum að vera þolinmóðir og skipulagðir því það verður ekki auðvelt að brjóta vörnina niður. Ef okkur tekst að skora snemma í leiknum er ég viss um að leikur Möltu mun riðlast talsvert en ef þeir ná að halda hreinu lengi verður verkefnið erfiðara. En ég hef fulla trú á því að við náum í þrjú stig í þessari viðureign," sagði Ásgeir Sigurvinsson.

Líklegt byrjunarlið Íslands: Markvörður: Árni Gautur Arason. Varnarmenn, Auðun Helgason, Haraldur Guðmundsson, Stefán Gíslason, Arnar Þór Viðarsson. Miðjumenn: Kári Árnason, Brynjar Björn Gunnarsson, Eiður Smári Guðjohnsen, Grétar Rafn Steinsson.

Framherjar: Heiðar Helguson og Tryggvi Guðmundsson.