Bókaútgáfan á Hofi. Pappírskilja.

MIKLIR snillingar eru Húnvetningar. Nýlega hef ég lesið nokkrar húnvetnskar ævisögur, hverja annarri merkilegri, nú síðast Sjálfsævisögu Björns Eysteinssonar sem barst mér í hendur um daginn. Mér skilst að þessi bók hafi verið ófáanleg um tíma en nú er hún komin á markað aftur í pappírskilju frá Bókaútgáfunni á Hofi; hjá því forlagi kom hún út árið 1991, þá í 3. útgáfu (1. útg. 1957).

Björn Eysteinsson (1848-1939) skrifaði ævisögu sína veturinn 1913-14, þá kominn á sjötugsaldur. Síðar, eftir að hann var orðinn blindur, skráði ráðskona hans og barnsmóðir ýmsa þætti eftir frásögn hans og eru þeir auðkenndir í bókinni með gæsalöppum. Í bókarlok er ættartala Björns auk athugasemda og skýringa við texta. Þá er einnig birt viðtal við syni hans tvo, þá Lárus og Eystein. Formála ritaði prófessor Björn Þorsteinsson, dóttursonur Björns.

Full ástæða er til að vekja athygli á þessari bók. Hún lýsir frá fyrstu hendi bændasamfélagi á seinni hluta 19. aldar, þeim tíma þegar fólk úr Húnavatnsþingi streymdi til Ameríku að leita sér betra lífs. Meðal annarra fór fyrsta eiginkona Björns vestur um haf eftir að hafa "strokið" frá honum þar sem þau bjuggu á Orrastöðum á Ásum. Við lesturinn fær maður samúð með þeim sem vildu flýja baslið hér en dáist jafnframt að hinum sem eftir sátu og reyndu að sigrast á eymdinni. Björn varð hvað eftir annað fyrir fjármissi, bæði vegna harðinda og sauðfjárveiki. Í velgengni var hann öfundaður. Hann varð stórskuldugur og hrökklaðist fram á reginheiði upp af Vatnsdal og bjó þar með annarri konu sinni og ungum börnum í nokkur ár, fyrst í sárafátækt, svo mikilli að allt þurfti að selja út úr bælunum nema yfirsængurdýnu úr rúmi konunnar. Úrið lét Björn úr vasanum og var klukkulaus á heiðinni í tvö ár.

Konan hafði farið nauðug með manni sínum inn á heiði en jafnnauðug sneri hún með honum til byggða. Síðustu árin á heiðinni tókst þeim að vinna sig upp úr skuldafeninu með fáheyrðum dugnaði og útsjónarsemi. Þótt einangrunin hafi verið mikil og vetur harðir fylgdu dvölinni þarna kostir. Börnin fengu t.d. ekki þær pestir sem herjuðu á börn í sveitinni. Álftaveiðar gáfu mikið af sér og einnig refaveiðar en fáir stóðu Birni á sporði í skotfimi. Silungur var í vötnum og eggjatekja á vorin. Og svo voru það fjallagrösin, ‘grasalímið', sem stundum varð að nægja sem fæða tímunum saman, einkum þegar bóndinn var á grenjum. Eitt sinn var maginn orðinn svo slappur að Björn gat ekki komið nýveiddum silungi niður.

Því hefur verið haldið fram að eitthvað sé af Birni Eysteinssyni í persónu Bjarts í Sumarhúsum. Samkvæmt ofansögðu væri það þó ekki skilningur á mikilvægi fuglakjöts fyrir heiðarbóndann. En sameiginlega eiga þeir trúna á sauðféð og andúð á kúm. Birni þótti mun ábatameira að fóðra 40 kindur en eina kú, þar sem útbeit var. "Það er alveg ólíkt hvað sú ærtala gefur af sér, til hvers sem maður vill brúka það, heldur en hreytan úr kúnni" (101).

Lýsing Björns á því samfélagi sem hann tilheyrði er merkileg, sbr. til dæmis baráttu hans við "smákóngana" í Vatnsdal sem létu þá lúta sér sem minna máttu sín. "En ég hef aldrei þolað órétt og ætíð fór það svo að ég hafði mitt fram með einhverjum glettusnúning svo að ég varð ofan á" (61). Frásagnir af nokkrum slíkum ‘glettusnúningum' eru forkostulegar. Oft var þá áfengi með í spili, og athyglisvert er að jafnvel þegar örbirgð Björns var mest sleppti hann aldrei taki á ‘kútnum'. Kona hans á heiðinni hafði ekki viljað að hann neitaði sér um þá ánægju sem áfengið veitti honum. Einhver mundi kannski segja að þannig ættu fleiri konur að vera.

Oft á maður reyndar erfitt með að skilja þankagang Björns Eysteinssonar, t.d. þegar hann nær öðru barna sinna af fyrsta hjónabandi frá móðurafa og nafna til þess eins að koma því í fóstur hjá öðru fólki. Undravert er líka hvað mikið hann leggur stundum á sig fyrir aðra, m.a. háskalega för til amtmannsins á Akureyri um hávetur til að fá frá honum úrskurð um búseturétt kunningja síns á tiltekinni jörð, en þann rétt ætluðu fyrirmenn í héraði að taka af honum. ‘Margur grátandi' bað guð að launa Birni hvers kyns gjafir og ölmusu þegar hann var orðinn aflögufær. Hann varð stórefnamaður og eignaðist margar jarðir. Á einni þeirra settist hann að eftir að hann var orðinn blindur - og hóf þar stórbúskap!

Orðið karlremba var ekki til á tímum Björns. En fróðlegt gæti verið fyrir nútímakonur að lesa það sem Björn segir um kynsystur þeirra, sbr. til dæmis þetta (106-107):

"Alltaf hef ég haft það fyrir vanareglu frá því fór að rakna úr fyrir mér á Réttarhól [heiðarbýlinu] að byggja mig upp með bjargræði frá sumri til kauptíðar næsta sumar og gjarna til hausts, en heimta þá reglu af konu minni að hún setji á sig hvað brúka þurfi þennan og þennan tímann, eins og við fjármennirnir þurfum að vita hvað við þurfum handa fé okkar eða skepnum. Síðan hef ég aldrei komist í þröng, hvorki með mat eða hey, mikið heldur getað miðlað öðrum. Því miður hef ég orðið var við það hjá sumum konum að þær láta hinar og þessar vitlausar stelpur vaða í verkum sínum, sína í hvert skipti, allt reglulaust, og ef bóndinn viðar að sér talsverðu í einu, þá á þetta aldrei að geta þrotið, en það er þá þrotið fyrr en varir, og heimta svo af manninum, hvort það er mögulegt eða ekki, að veita það, og getur oft orðið þras úr. Þetta get ég gjarnan kennt manninum [þ.e. kennt manninum um] að koma ekki viti fyrir konu sína, því þetta er ekki síður slæmt fyrir hana en manninn, því ekki getur hann veitt henni það sem kannski hvergi fæst."

En þrátt fyrir ýmis framandi sjónarmið er margt í þessari sögu furðunálægt og ýtir við manni, t.d. þessi óbilandi þrautseigja: þú skalt aldrei gefast upp. Við erum minnt á að það er vont að skulda. Birni þótti betra að gefa en þiggja og viðkunnanlegra að segja ‘komdu' en ‘farðu'. Hann var afar næmur á náttúru landsins og kosti hennar. Og svo er það málfar þessa óskólagengna manns. Margt getum við lært af því enda er það safaríkt með afbrigðum og laust við alla tilgerð og málalengingar.

Gísla Pálssyni á Hofi í Vatnsdal er hér með þakkað fyrir að koma þessari bók á markað í ódýrri og handhægri útgáfu. Hér er komið lestrarefni til að fara með í vorferðina.

Baldur Hafstað