Nokkrir þingmenn úr öllum flokkum lögðu á lokadögum Alþingis fram tillögu til þingsályktunar um rekstur skólaskips hér við land.

Nokkrir þingmenn úr öllum flokkum lögðu á lokadögum Alþingis fram tillögu til þingsályktunar um rekstur skólaskips hér við land. Forsaga málsins er sú að rannsóknarskipið Dröfn hefur undanfarin ár verið notað að hluta sem skólaskip og rekstur þess styrktur af sjávarútvegsráðuneytinu. Hefur nemendum 10. bekkjar verið boðið út á sjó til að kynnast sjávarútvegi og vinnu um borð í fiskiskipum, fræðast um sjávarlífverur og veiðarfæri. Á þessu ári var ekki veitt fé til þessarar fræðslu og í fyrsta skipti í mörg ár féll hún niður. Á undanförnum árum hafa hátt í 2.000 skólanemar farið í þessar ferðir ásamt kennurum.

Nú er fyrirsjáanlegt að þetta verkefni leggist af vegna fjárskorts og flutningsmenn tillögunnar telja afar mikilvægt að aftur verði boðið upp á fræðsluferðir með svipuðu sniði í samstarfi við Hafrannsóknastofnunina.

Í greinargerð með þingsályktuninni var vitnað í einn þeirra kennara sem sinnt hefur fræðslunni. Hann sagði orðrétt, með leyfi forseta: "Ég hef farið á hverju ári síðustu 4 eða 5 ár og þetta er bæði mjög fróðlegt og vel skipulagt verkefni sem krakkarnir hafa ótrúlega gaman af. Meira að segja mestu pempíur (á bæði við stelpur og stráka) voru komnar á kaf í aðgerð þegar við vorum búin að draga inn trollið."

Landssamband smábátaeigenda var meðal þeirra hagsmunaaðila sem veittu tillögunni umsögn, þar sem m.a. kom fram: "Nemendur fá þar nauðsynlega innsýn í sjávarútveginn, fiskveiðar og lífið í sjónum. Þannig fræðast þeir um það sem gerist á sjónum sem vekur hjá þeim margar spurningar. Úrvinnsla ferðarinnar fer svo fram í skólanum þar sem verkefnum er skilað. Við vinnslu þess er jafnvel leitað í sjóði foreldra til að fá svör við því sem gerist áleitið. Þannig vakna umræður á heimilinu um sjávarútveginn sem nauðsynlegt er hjá þjóð sem á allt sitt undir öflugum sjávarútvegi." Hverju orði sannara.

Var málinu vísað til sjávarútvegsnefndar Alþingis sem síðan komst að því að sjávarútvegsráðuneytið gerði í vetur samning við einkaaðila um að taka að sér siglingar með nemendur 9. og 10. bekkjar grunnskólanna og verður rannsóknaskipið Dröfn RE notað í verkefnið. Verkefnið hófst í apríl sl. og hafa þegar verið farnar nokkrar ferðir og verður haldið áfram í haust. Þessu ber að fagna og vonandi verður þessum samningi fylgt eftir á næstu árum.

hema@mbl.is

Höf.: hema@mbl.is