VIGGÓ Sigurðsson, þjálfari íslenska landsliðsins í handknattleik, vonast eftir því að sínir menn fylgi eftir góðum sigri á Svíum í Kaplakrika í fyrrakvöld en þjóðirnar mætast öðru sinni á Akureyri í kvöld.

VIGGÓ Sigurðsson, þjálfari íslenska landsliðsins í handknattleik, vonast eftir því að sínir menn fylgi eftir góðum sigri á Svíum í Kaplakrika í fyrrakvöld en þjóðirnar mætast öðru sinni á Akureyri í kvöld. Þetta er síðasti undirbúningur liðsins fyrir leikina á móti Hvít-Rússum um laust sæti á Evrópumótinu en fyrri leikur þjóðanna verður í Kaplakrika á sunnudaginn.

"Ég var virkilega ánægður með leikinn í Kaplakrika. Vörnin var að vísu svolítið opin í fyrri hálfleik en 6:0 vörnin small saman í síðari hálfleik og þeir náðu mjög vel saman, þeir Sigfús og Garcia. Ég reikna nú fastlega með að Svíar verði grimmari og vilji hefna ófaranna en við ætlum líka að mæta ákveðnir til leiks og ætlum svo sannarlega að leggja Svíana aftur að velli," sagði Viggó við Morgunblaðið í gær.

Ólafur Stefánsson, Vignir Svavarsson, Arnór Atlason og Björgvin Gústavsson, sem hvíldu í fyrri leiknum, koma inn í liðið í kvöld í stað þeirra Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar, Roland Eradze, Markúsar Mána Michaelssonar og Guðmundar Hrafnkelsson sem fékk kveðjuleik með landsliðinu í fyrrakvöld.

,,Við ætlum að spila á fullu gasi og fínpússa leik okkar fyrir leikinn á móti Hvít-Rússunum sem fram fer um næstu helgi," sagði Viggó.

Viggó segist fá í hendur í dag myndbandsspólur með fjórum leikjum Hvít-Rússa sem þeir léku gegn Litháum og Ungverjum á dögunum. ,,Það verður gott að geta kynnt sér aðeins hvað þeir eru að gera. Hefðin fyrir handbolta er rík í Hvít-Rússlandi og ég á ekki von á öðru en hörkuleikjum á móti þeim," sagði Viggó.