Anna Fríða Stefánsdóttir fæddist á Akureyri 6. október 1934. Hún lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 25. maí síðastliðinn og var jarðsungin frá Landakirkju í Vestmannaeyjum 4. júní.

"Margs er að minnast,

margt er hér að þakka."

Þetta eru orð sem koma upp í huga mér þegar ég minnist mömmu minnar. Mömmu sem ég sakna sárt en hugsa þó með gleði í hjarta að þar sem hún er núna stödd líður henni vel. Henni líður vel vegna þess að hún er núna hjá þeim sem hún saknaði í lifanda lífi. En ég bíð þess tíma að hitta hana aftur vegna þess að sá tími mun koma. Ég sakna hennar sérstaklega vegna þeirra stunda sem við áttum saman og ég minnist. Ég minnst þess að hún sagði mér frá því að þegar ég fæddist þá fannst henni best að horfa á mig með sængina upp að höku vegna þess að henni fannst ég svo horuð. Ég minnist þess að ef að ég vildi ekki borða þá var ég minnt á börnin í Biafra en fékk samt sem áður súputeningssoð að borða vegna þess að það fannst mér gott. Ég minnist þess að alltaf fékk ég að koma upp í til hennar þegar ég vaknaði upp um nætur og hún vildi hafa mig sín megin vegna þess að hún var svo hrædd um að pabbi myndi ekki finna fyrir mér á milli þeirra. Ég minnist þess að þegar við horfðum á sjónvarpið þá var hún alltaf tilbúin að strjúka á mér hendurnar, bakið eða hárið. Ég minnist þess að hún bakaði bestu loftkökur í heimi fyrir jólin og þær smökkuðust ofsaleg vel þó svo að límt væri fyrir dunkinn. Ég minnist þess að mér fannst ég vera í flottustu fötunum sem hún saumaði á mig fyrir Þjóðhátíð, sem ég átti síðan að nota á jólunum líka. Ég minnist þess að þegar ég var orðin eldri að þá þurfti ég bara að sína henni föt í "móðins blöðunum" og hún saumaði eða prjónaði það. Ég minnist þess að hún rakti upp og byrjaði að nýju, hún hætti ekki fyrr en hún var orðin fullkomlega ánægð með það sem hún var að gera. Hún vildi ekki láta neitt frá sér ófullkomið. Hún meira að segja þvoði hvítu smekkbuxurnar sem ég notaði á Þjóðhátíðinni, eftir hvert kvöld, til að ég væri nú ekki að fara í þær skítugar. Ég minnist þess að hún var aldrei með læti og hún vann öll sín verk í hljóði og eins og allt annað var það gert á fullkominn hátt. Ég minnist þess að henni fannst alltaf gott að leggja sig eftir hádegi og það var stund sem allir tóku fullt tillit til. Ég minnist þess að henni fannst gaman að hitta fólk en þó aldrei eins mikið og þegar það kom til hennar. Hún átti marga góða vini sem hafa ætíð hugsað hlýtt til hennar og sýnt það í verki og orði. Ég minnist þess að hafa átt góðar stundir mér þér, elsku mamma mín, og þess vegna segi ég:

Þú gafst mér skýin og fjöllin

og guð til að styrkja mig.

Eg fann ei, hvað lífið var fagurt,

fyrr en eg elskaði þig.

Eg fæddist til ljóssins og lífsins,

er lærði eg að unna þér,

og ást mín fær ekki fölnað

fyrr en með sjálfum mér.

(Sigurður Nordal.)

Takk fyrir allt, elsku mamma. Ég bið að heilsa pabba.

Þín dóttir,

Helena.

Í örfáum orðum langar mig að minnast tengdamóður minnar, sem mér hlotnaðist að kynnast þegar ég fór að vera með yngri dóttur hennar fyrir u.þ.b. 24 árum. Ég minnist hennar sem hæglátrar konu með ákveðnar skoðanir sem hún lét í ljós þegar henni fannst þörf á. Frá fyrstu kynnum tók hún mér vel. Við skiptumst á skoðunum um hin ýmsu mál sem við vorum ekki alltaf sammála um en við létum það ekki skemma fyrir okkur þá vináttu sem með okkur tókst. Þær stundir sem við áttum saman hefðu mátt verða fleiri, en við getum sagt að það er ekki magnið heldur eru það gæðin sem skipta máli. Og það á vel um hana Önnu Fríðu, tengdamóður mína, nóg átti hún af gæðastundum. Hún var góð kona með hlýtt hjarta á réttum stað og vildi öllum það besta. Hún lét oftar en ekki sjálfa sig sitja á hakanum til að öðrum liði vel. Hennar heimili, Grund, var ætíð opið gestum og gangandi. Þangað var oft á tíðum komið við áður en farið var í bankann, niður í bæ til að útrétta eða áður en farið var heim eftir bæjarferð. Hún átti alltaf kaffi á könnunni og það nægði flestum, en ekki spillti ef hún átti kex til að hafa með. Ég minnist einnig þeirra stunda eftir að ég hóf störf í lögreglunni að haft var samband á vaktina og ég beðinn um að skjótast eftir þeim vinkonum, Siggu systur hennar, Írisi, Maggý og Auði systur hennar, meðan hún bjó hér í Eyjum. Þetta var eftir að þær höfðu verið að skemmta sér og þá oftar en ekki á Grundinni og vantaði skutl heim. Það tók stundum dálítinn tíma að koma sér af stað vegna þess að það þurfti oft að taka eitt lag í lokin. Þetta voru stundir sem hún talaði oft um og hló ekki lítið að. Þær skemmtu sér yfir ættjarðarsöngvum að norðan eða héðan úr Eyju, rifjuðu upp gamla tíma og lögðu ráðin á áframhaldandi vináttu og tengsl. Ég veit að þetta voru stundir þar sem henni leið vel vegna þess að hún var í hópi vina og þeirra sem henni þótti vænt um.

Elsku Anna mín, megi góður guð gefa þér góða hvíld. Ég vil þakka allar samvistir okkar og ég hlakka til þeirrar stundar að við hittumst á ný.

Jón Bragi.

Elsku amma á Grund.

Takk fyrir þann tíma sem við fengum að vera saman. Takk fyrir að leyfa okkur að eiga þig sem ömmu. Ömmu sem gafst okkur allt sem þú gast gefið. Gafst okkur tíma til að fá að vera við sjálf. Takk fyrir allar brauðsneiðarnar úr örbylgjuofninum sem þú passaðir að væru rétt niðurskornar. Takk fyrir að leyfa okkur að sofa hjá þér þegar okkur langaði til. Takk fyrir að hita hrísgrjónagraut þegar okkur langaði í hann. Takk fyrir möndlukökuna og vínarbrauðin. Takk fyrir að leyfa okkur að hjálpa þér þegar þú varst komin í hjólastólinn. Takk fyrir allt nammið í skúffunni. Elsku amma, takk fyrir allar stundirnar og takk fyrir að vera þú sjálf.

Ástarkveðja,

Þorgils Orri, Margrét Steinunn og Valur Yngvi.