Erla Magnúsdóttir fæddist á Akranesi 8. maí 1934. Hún lést á heimili sínu 30. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Magnús Ingibjörn Gíslason frá Gauksstöðum í Garði og Ástrós Guðmundsdóttir frá Akurgerði á Akranesi. Erla var elst sex systkina. Látin eru Gísli Sveinbjörn, f. 17.4. 1936, d. 22.10. 1991; Sigríður, f. 14.8. 1940, d. 30.10. 1993; Björgvina, f. 30.3. 1949, d. 14.3. 1997. Eftirlifandi eru Margrét, f. 5.11. 1942; og Guðmunda Marsibil, f. 4.10. 1944.

Erla lætur eftir sig tvö börn; Magnús Víði, f. 22.2. 1961; og Bryndísi Róbertsdóttur, f. 30.5. 1966.

Útför Erlu verður gerð frá Fossvogskapellu í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Að minnast mömmu er erfitt, orð eru fátæk, og þau sem bezt lýsa hvernig okkur er innan brjósts er at finna í ljóði mömmu:

Þökk fyrir elsku og ástúð

og umönnun slíka,

þökk fyrir glaðværð og gáska

og glettna lund.

Þökk fyrir hlýleik og léttlyndi

og ljúfmennsku ríka,

þökk fyrir góðsemi og gersemar

úr þinni gjöfulu mund.

Þökk fyrir hlátur og heilindi

til handa mér,

þökk fyrir lífsvon og kærleika

er fékk ég frá þér.

Elsku mamma, minning þín mun alltaf fylgja okkur.

Magnús og Bryndís.

Ástkær systir okkar, Erla Magnúsdóttir, er látin eftir langvarandi veikindi. Hún var elst sex barna foreldra okkar, hjónanna Magnúsar I. Gíslasonar og Ástrósar Guðmundsdóttur, sem bæði eru látin.

Foreldrar okkar fluttust frá Akranesi til Reykjavíkur árið 1945 og bjuggu alla tíð í Efstasundi 51. Þar ólumst við upp við leik og störf og minningarnar hrannast upp er við ritum þetta.

Þar sem Erla var elst kom það í hennar hlut að passa okkur sem yngri vorum. Á þessari stundu er það okkur efst í minni þegar hún settist í rökkrinu á forstofugólfið með okkur allar í kringum sig, spilaði á gítar og söng öll fallegu ljóðin sem enn þann dag í dag ylja manni um hjartarætur.

Alltaf var gott og notalegt að koma til Erlu. Hún var glaðleg og greind kona sem hægt var að tala við um hvað sem var.

Elsku Erla, nú er ekki lengur hægt að slá á þráðinn og spyrja spurninga um lífið og tilveruna og söknum við þess mjög.

Erla eignaðist tvö börn, Magnús Víði og Bryndísi, sem hún ól upp af mikilli kostgæfni. Bar hún velferð þeirra ætíð fyrir brjósti.

Elsku Magnús Víðir og Bryndís, ykkar missir er mikill en við stöndum saman og finnum styrk í trúnni.

Elsku Erla, við þökkum þér fyrir samfylgdina í gegnum lífið.

Hinsta kveðja,

Margrét og Guðmunda.

Þú komst í heimsókn, eins og svo oft áður, þú hafðir verið að leita að afmælisgjöf handa dóttur þinni. Við ræddum um heima og geima eins og við vorum vanar.

Þú varst með hressasta móti en svolítið slæm í fótunum, áttir erfitt með að fara upp í strætó og úr, annars var allt í lagi. Það var það reyndar alltaf "allt í lagi".

Þegar kvöldaði settist þú í stólinn þinn og horfðir á uppáhaldsþáttinn þinn í sjónvarpinu, lést fara vel um þig, lygndir aðeins aftur augunum en opnaðir þau ekki aftur - lífið var liðið. Hvað hefur tekið við vitum við ekki.

Erla var mikill persónuleiki sem erfitt er að lýsa en þeir sem þekktu hana vita hvað ég meina.

Elsku Bryndís, Magnús, Munda og Maggý, mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra.

Ég sendi með ljóð sem Erla samdi og gaf mér þegar ég varð fimmtug:

Hvar eru árin?

Hvað varð um sárin,

sem við fengum?

Horfin úr hug,

vísað á bug,

er við gengum,

leiðina fram og fundum

að allt, sem við mundum

var gott.

María.