Steingrímur J. Sigfússon, Kristín Halldórsdóttir og Svandís Svavarsdóttir (lengst t.v.) kampakát með nýja listabókstaf flokksins.
Steingrímur J. Sigfússon, Kristín Halldórsdóttir og Svandís Svavarsdóttir (lengst t.v.) kampakát með nýja listabókstaf flokksins. — Morgunblaðið/Sverrir
VINSTRIHREYFINGIN - grænt framboð hefur sótt um og fengið úthlutað nýjum listabókstaf, þ.e. bókstafnum V í stað U, sem hreyfingin hefur haft til þessa. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem hreyfingin efndi til í höfuðstöðvum sínum nýlega.

VINSTRIHREYFINGIN - grænt framboð hefur sótt um og fengið úthlutað nýjum listabókstaf, þ.e. bókstafnum V í stað U, sem hreyfingin hefur haft til þessa. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem hreyfingin efndi til í höfuðstöðvum sínum nýlega.

Í máli Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, kom fram að talsvert hafi borið á misskilningi meðal fólks hvaða bókstaf flokkurinn hefði, en flokkurinn hefur notað listabókstafinn U í tvennum Alþingiskosningum og einum sveitarstjórnarkosningum. Segir Steingrímur misskilninginn sérstaklega hafa verið áberandi í síðustu Alþingiskosningum þar sem talsvert hafi borið á því að utankjörstaðaatkvæði hefðu verið merkt með V.

Ruglingur á milli V og U

"Voru slík utankjörstaðaatkvæði úrskurðuð flokknum í sumum kjördæmum en öðrum ekki," segir Steingrímur og bendir á að sami ruglingur hafi einnig verið uppi á teningnum í sveitarstjórnarkosningunum 2002. Segir hann þennan rugling milli V og U vafalítið til kominn vegna þess að nafn flokksins byrjar á V, auk þess sem merki flokksins er stílfært V.

Þegar Vinstrihreyfingin - grænt framboð var stofnuð árið 1999 var reglum samkvæmt ekki hægt að fá listabókstafinn V þar sem of stutt var þá um liðið síðan bókstafurinn hafði síðast verið notaður í kosningum, en Kvennalistinn bauð fram undir með þeim bókstaf í Alþingiskosningum árið 1995. Að sögn Steingríms hefur það verið regla að úthluta ekki öðrum aðila listabókstaf fyrr en að minnsta kosti undangegnum einum kosningum þar sem hann hefur ekki verið notaður.

1. ágúst nk. tekur Svandís Svavarsdóttir við framkvæmdastjórastarfinu af Kristínu Halldórsdóttur. Greint var frá því á fréttamannafundinum að næsti landsfundur flokksins verði haldinn á Grand Hóteli í Reykjavík helgina 21.-23. október.