ÁHÖFNIN á ísfisktogaranum Kaldbak EA hlaut viðurkenningu Slysavarnaskóla sjómanna ársins 2005.

ÁHÖFNIN á ísfisktogaranum Kaldbak EA hlaut viðurkenningu Slysavarnaskóla sjómanna ársins 2005. Sigurgeir Guðmundsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, afhenti viðurkenninguna á sjómannadaginn og veitti Gunnar Gunnarsson, útgerðarstjóri hjá Brimi hf., henni móttöku fyrir hönd áhafnar Kaldbaks EA. Skipstjóri á Kaldbak EA er Sveinn Hjálmarsson.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur ákveðið að veita árlega viðurkenningu til áhafna skipa sem sótt hafa námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna og sýnt öðrum fremur góða öryggisvitund að mati kennara skólans. Viðurkenningin er farandbikar sem afhentur er í tengslum við sjómannadaginn til varðveislu um borð í viðkomandi skipi í eitt ár ásamt veggskildi til eignar.

Athöfnin fór fram í Slysavarnaskóla sjómanna um borð í Sæbjörgu, skólaskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Viðurkenning sem þessi til nemenda Slysavarnaskóla sjómanna var síðast veitt árið 2000 en þá var Sæbjargarbikarinn veittur í síðasta sinn. Sæbjargarbikarinn var gjöf Jóhanns Páls Símonarsonar sjómanns og árin 1991 til 2000 hlutu níu áhafnir viðurkenninguna en áhöfnin á Mánabergi ÓF hlaut hana tvisvar á tímabilinu.