Franskt nei var upphafið að endinum.
Franskt nei var upphafið að endinum.
Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is Varð rangnefni stjórnar- skrá ESB að falli? "Einn af þeim þáttum sem ollu því að almenningur snerist gegn nýrri stjórnarskrá ESB er einmitt nafnið "stjórnarskrársáttmáli"," segir Baldur Þórhallsson.
Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is

Varð rangnefni stjórnar- skrá ESB að falli?

"Einn af þeim þáttum sem ollu því að almenningur snerist gegn nýrri stjórnarskrá ESB er einmitt nafnið "stjórnarskrársáttmáli"," segir Baldur Þórhallsson. "Það hljómar þannig að það sé verið að koma á ákveðinni stjórnarskrá í Evrópu með þeim róttæku breytingum sem það hefur í för með sér." Það sé þó ekki raunin og fyrir vikið hafi málið fengið á sig neikvæðan blæ hjá þeim sem ekki vilja meiri völd til Brussel.

Ný stjórnarskrá Evrópusambandsins hefur gengið í gegnum miklar hremmingar undanfarna daga, með höfnun Frakka og Hollendinga og frestun á þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi, og segja sumir að í raun sé stjórnarskráin dautt plagg þó að staðfestingarferlið hafi haldið áfram í öðrum ríkjum.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að hann teldi stjórnarskrána í raun dauðadæmda í núverandi mynd, og langan tíma muni taka að átta sig á því hvert framhaldið verður. Það hafi verið mikil bjartsýni að leggja svo flókna stjórnarskrá fyrir um leið og verið er að stækka ESB svo mikið, og ekki verra fyrir sambandið að taka sér lengri tíma til þess að fara yfir málin.

"Að mínu mati dregur þetta úr því að menn haldi áfram að vinna að því, að mínu mati óraunhæfa verkefni, að Evrópa verði einhvers konar sambandsríki. Ég tel að þessi niðurstaða sýni að það er ekki stuðningur við það meðal þessara þjóða," segir Halldór. "Þess vegna tel ég að það Evrópusamband sem verður til í framhaldi af þessu sé aðgengilegra fyrir lönd eins og Norðurlöndin með sínar lýðræðishefðir og sína áherslu á að þjóðríkin starfi áfram með eðlilegum hætti en deili fullveldi sínu á ákveðnum sviðum."

Aukið samband við ESB á bið

Davíð Oddsson utanríkisráðherra segir það ekki hafa nein bein áhrif hér á landi þó stjórnarskrá ESB verði ekki að veruleika. "Ég held að það hafi enginn í raunverulegri alvöru talað um inngöngu Íslands í ESB, það dæmi gengur alls ekki upp af mörgum ástæðum. Ekki bara sjávarútveginum, þó það sé augljóst út frá því, heldur jafnframt vegna evrunar og bindingar við þá þætti. Við sjáum hvert vandamálið er, við erum að hækka vexti af því að hér er svo mikill uppgangur, en þeir eru að kýla vexti niður í botn af því þeir eru í svo mikilli lægð."

Hann segir ljóst að á meðan forsvarsmenn ESB taki ekki á sínum innri málum sé öll umræða um vaxandi samband annarra þjóða við ESB í raun komin á bið. Það megi m.a. sjá á afstöðu Norðmanna, en þar hefur Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra sagt að útilokað sé að spurningin um aðild Noregs að ESB komist á dagskrá næstu fjögur árin. Davíð segir stjórnarskrána úr leik, eins og ljóst hafi verið þegar Frakkland hafnaði henni, og enn betur nú þegar Holland hefur einnig hafnað henni, og Bretland frestað atkvæðagreiðslunni.

Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur segir að fljótt á litið hafi sú staða sem stjórnarskráin er komin í ekki mikil áhrif á hugsanlega aðild Íslands að ESB. Spurningin sé hvað gerist í framhaldinu, hvort þetta hægi á stækkun og dýpkun sambandsins, t.d. því að ríkin taki upp nánari samvinnu á sviði öryggis- og varnarmála.

Ein möguleg áhrif eru þó þau að draga úr áhuga Norðmanna á því að ganga í ESB, sem minnki þá um leið pressu á íslensk stjórnvöld að skoða aðild, þó ekki sé sjálfgefið að Ísland gangi í sambandið þó Norðmenn gerið það.

Baldur segir að í stjórnarskránni sem slíkri hafi ekki verið neinar þær róttæku breytingar sem kallað geti á aukna miðstýringu frá Brussel. Þær breytingar hafi í raun verið þegar komnar með eldra samkomulagi og ESB verði svipað eftir sem áður. "Ég held því að þetta breyti hvorki afstöðu þeirra sem hingað til hafa verið mótfallnir aðild Íslands að ESB né eru henni fylgjandi."

Yfirlýsingar Evrópusinnaðra stjórnmálamanna undanfarinna daga má túlka á þann hátt að haldið verði áfram á sömu braut í stað þess að hlusta á þá sem greiddu atkvæði gegn stjórnarskránni, að mati Baldurs. Því virðist sem haldið verði áfram með Evrópusamrunann, þó finna þurfi aðrar leiðir til þess, og vilji kjósenda í raun hundsaður.

Eykur eða dregur úr áhuga?

Svo virðist sem staða stjórnarskrárinnar hafi ekki áhrif á afstöðu þeirra sem annaðhvort eru fylgjandi aðild Íslands að ESB eða mótfallnir henni. "Ef eitthvað er þá ætti þetta að auka áhugann, held ég," segir Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, félags áhugamanna um Evrópusamvinnu. Hann segir höfnun á stjórnarskránni í raun gera ESB meira aðlaðandi fyrir Íslendinga, sambandið verði sveigjanlegra og minna miðstýrt og möguleikar í aðildarviðræðum meiri.

Ragnar Arnalds, formaður Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, er á öndverðum meiði, og segist ekki í vafa um að neikvæð umræða um stjórnarskrána hafi þau áhrif að áhugi á aðild hér á landi minnki. Hann bendir á stöðuna í Noregi þar sem stórfelld umskipti hafa orðið í afstöðu kjósenda til ESB.