PORTÚGALSKA bókaforlagið Cavalo de Ferro eða Járnhesturinn hefur sýnt verkum Nóbelsskáldsins Halldórs Laxness áhuga og hefur farið þess á leit við Guðlaugu Rún Margeirsdóttur, sem búsett hefur verið í Portúgal undanfarna tvo áratugi, að hún þýði...

PORTÚGALSKA bókaforlagið Cavalo de Ferro eða Járnhesturinn hefur sýnt verkum Nóbelsskáldsins Halldórs Laxness áhuga og hefur farið þess á leit við Guðlaugu Rún Margeirsdóttur, sem búsett hefur verið í Portúgal undanfarna tvo áratugi, að hún þýði Sjálfstætt fólk eftir skáldið úr íslensku á portúgölsku. Guðlaug Rún hefur tekið tilboðinu og áætlar hún að verkinu verði lokið einhverntíma á næsta ári. Guðlaug Rún hefur áður þýtt verk Einars Más Guðmundssonar, Engla alheimsins, á portúgölsku. Sú bók kom út í Portúgal í fyrra og er fyrsta íslenska skáldsagan sem gefin er út í Portúgal. Þýðandinn telur að Laxness muni höfða vel til Portúgala þar sem hann skrifi um mannlegar tilfinningar, sem höfði til allra lesenda, alls staðar. "Það þarf auðvitað mikið hugrekki til að þýða Laxness, en ég hef bæði íslensku og ensku útgáfurnar til hliðsjónar við þýðinguna yfir á portúgölsku," segir þýðandinn og bætir við að á bak við bókaforlagið standi ungir og athafnasamir menn, sem hafi mikinn áhuga á norrænni menningu. | 24