[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samkvæmt niðurstöðum Hafrannsóknastofnunar er ýsustofninn afar sterkur um þessar mundir og leggur hún til að veidd verði 105.000 tonn af ýsu á næsta fiskveiðiári. Það yrði þá mesti ýsuafli Íslendinga fyrr og síðar.

Samkvæmt niðurstöðum Hafrannsóknastofnunar er ýsustofninn afar sterkur um þessar mundir og leggur hún til að veidd verði 105.000 tonn af ýsu á næsta fiskveiðiári. Það yrði þá mesti ýsuafli Íslendinga fyrr og síðar. Ufsastofninn er einnig í örum vexti, en þorskstofninn braggast hægt.

Hér á eftir fer mat Hafrannsóknastofnunar á nokkrum helztu nytjategundum okkar öðrum en þorski, sem gerð voru skil í Morgunblaðinu í gær:

Ýsan

Ýsuaflinn á árinu 2004 var tæp 85 þús. tonn eða ríflega 39% meiri en árið áður. Fyrir fiskveiðiárið 2004/05 lagði Hafrannsóknastofnunin til 90 þús. tonna aflahámark og aflamark var ákveðið það sama.

Stærð veiðistofns ýsu í ársbyrjun 2005 er metin 281 þús. tonn og hrygningarstofn 182 þús. tonn. Við mat á stærð stofnsins var stuðst við aldursgreindan afla og aldursskiptar vísitölur úr stofnmælingum botn-fiska í mars og október. Töluvert ósamræmi er milli niðurstaðna eftir því við hvora stofnmælinguna var stuðst. Allar niðurstöður sýna þó mikla stækkun stofnsins og mjög góða nýliðun á næstu árum.

Vegna góðrar nýliðunar hefur ýsustofninn verið í örum vexti síðan árið 2000 er hann var í lágmarki. Í upphafi árs 2005 voru bæði veiði- og hrygningarstofn meira en þrefalt stærri en árið 2000.

Samkvæmt núverandi mati virðist árgangur 2003 vera mjög stór, þ.e 300-500 milljónir tveggja ára nýliða. Síðan 1998 eru fimm af sjö árgöngum taldir stórir, en slíkt er mjög óvenjulegt. Þessi aukna nýliðun er m.a. talin stafa af hlýjum sjó fyrir norðan land og því að hátt hlutfall af árgöngum 1998-2003 hefur alist upp á grunnslóð norðan lands þar sem togveiðar hafa verið litlar á undanförnum árum. Minni skörun ungfisks og veiðisvæða er þannig að hluta talin skýra það að mat á uppvaxandi ýsuárgöngum hafi hækkað á hverju ári.

Meðalveiðidánartala 4-7 ára fisks árið 2004 er nú metin 0.44 og hefur lækkað verulega frá árinu 1999 en veiðidánartala hafði þá verið há um langt árabil.

Undanfarin ár hefur ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar miðast við að meðalveiðidánartala 4-7 ára fisks fari ekki yfir 0.47. Ef gert er ráð fyrir sama veiðimynstri á næsta fiskveiðiári og verið hefur á undanförnum árum mundi stór hluti aflans koma úr árganginum frá 2003, sem er mjög stór. Vísbendingar eru um að hann vaxi mun hægar en eldri ár-gangar og verði að mestu undir lágmarks löndunarstærð árið 2006. Má því reikna með að sjómenn forðist hann eins og hægt er og að veiðiálagið færist á eldri hluta stofnsins. Vegna þessa og einnig vegna töluverðrar óvissu í stofnmati er því talið óráðlegt að taka hann með í útreikninga á aflamarki næsta fiskveiðiárs.

Með hliðsjón af ofanrituðu leggur Hafrannsóknastofnunin til að hámarksafli ýsu fiskveiðiárið 2005/2006 verði 105 þús. tonn.

Ufsinn

Ufsaaflinn árið 2004 var um 65 þús. tonn sem er um fjórðungs aukning frá afla ársins 2003. Aflinn árin 1998-2001 var hins vegar sá minnsti síðastliðna hálfa öld, aðeins ríflega 30 þús. tonn á ári. Veiðistofn í ársbyrjun 2005 er metinn um 281 þús. tonn og hrygningarstofn um 100 þús. tonn, hvort tveggja nálægt því sem gert var ráð fyrir vorið 2004. Ufsa-stofninn var í lágmarki árin 1997-2000 vegna lélegrar nýliðunar en hefur stækkað umtalsvert síðan þá.

Mat á stærð árganganna frá 1998-2000 bendir til að þeir séu umtalsvert sterkari en árgangarnir frá árunum 1987-1995.

Hafrannsóknastofnunin leggur til að afli á fiskveiðiárinu 2005/2006 fari ekki yfir 80 þús. tonn. Með þeim afla eru líkur á því að veiðidánartala stofnsins haldist stöðug og verði nálægt 0.3, en sú sókn er talin samrýmast varúðarsjónarmiðum.

Skötuselurinn

Skötuselur hefur veiðst við suðurströnd landsins um langt árabil. Fram til ársins 1999 veiddist hann nær eingöngu sem meðafli í humar- og fiskibotnvörpu og var árlegur afli lengst af innan við 1.000 tonn. Árið 1999 var farið að sækja beint í skötusel með vörpu og árið eftir hófst bein sókn með stórriðnum netum og fór aflinn í 1.500 tonn. Á árinu 2003 var landað 1.686 tonnum og árið 2004 varð afli um 2.200 tonn. Er þetta mesti afli frá upphafi veiða.

Aukin nýliðun og stækkun útbreiðslusvæðis tegundarinnar vestur og norður með landinu er talin afleiðing stöðugrar hlýnunar sjávar. Hafrannsóknastofnunin telur að skötuselsstofninn hafi ekki verið í betra ástandi um langan tíma og nýliðun góð. Í því ljósi leggur stofnunin til að afli verið aukinn miðað við árið 2004 og að hámarksafli skötusels verði 2.200 tonn fyrir fiskveiðiárið 2005/2006.

Steinbíturinn

Afli steinbíts á árinu 2004 var 13.200 tonn samanborið við 16.500 tonn árið 2003 og var minnkunin vegna minni veiða á línu.

Vísitala veiðistofns og nýliðunarvísitölur steinbíts í stofnmælingu botnfiska lækkuðu verulega frá árinu 2003 til 2004 en breyttust lítið frá árinu 2004 til 2005. Er vísitala veiðistofns nú svipuð og hún var árið 1995 þegar hún var sú lægsta frá upphafi stofnmælingar.

Stofnstærðin er nú metin svipuð og árið 2004 en þá var stofninn metinn mun minni en árið 2003. Eins og undanfarin ár leggur Hafrannsóknastofnunin til að steinbítsaflinn miðist við kjörsókn og að hámarksaflinn á fiskveiðiárinu 2005/2006 fari því ekki yfir 13 þús. tonn. Auk þess leggur stofnunin til að steinbítur á hrygningarslóð á Látragrunni verði áfram friðaður á hrygningar- og klaktíma.

Grálúðan

Grálúða við Austur-Grænland, Ísland og Færeyjar er talin vera af sama stofni. Heildarafli grálúðu á þessu svæði var tæp 27 þús. tonn árið 2004 og er það 3.000 tonnum minna en árið áður. Afli Íslendinga árið 2004 var 15.500 tonn. Afli á sóknareiningu á Íslandsmiðum, sem var í lágmarki 1995-1997, jókst umtalsvert á árunum 1998-2001, en hefur síðan minnkað um helming og náði sögulegu lágmarki árið 2004. Þróun stofnvísitölu grálúðu samkvæmt stofnmælingu botnfiska að hausti 1996-2004 er í góðu samræmi við þróun í aflabrögðum. Afli á Færeyjamiðum hefur farið minnkandi undanfarin ár, en aukist á sama tíma við Austur-Grænland. Ekkert samkomulag er milli þjóða um nýtingu stofnsins.

Í ljósi þróunar í aflabrögðum og í stofnmælingum að hausti leggja Alþjóðahafrannsóknaráðið og Hafrannsóknastofnunin til að heildarafli grálúðu á svæðinu Austur-Grænland/Ísland/Færeyjar árið 2006 fari ekki yfir 15 þús. tonn. Þetta er talið leiða til verulegs samdráttar í sókn frá því sem nú er.

Karfastofnar

Samanlagður afli gullkarfa og djúpkarfa á Íslandsmiðum árið 2004 var rúm 49 þús. tonn og er það rúmlega 15 þús. tonna minnkun frá árinu áður.

Gullkarfaafli var áætlaður tæp 32 þús. tonn árið 2004, sem er 4.000 tonnum minni afli en árið áður.

Sókn í stofninn hefur minnkað verulega á undanförnum árum en afli á sóknareiningu hefur aukist. Vísitölur veiðistofns gullkarfa í stofnmælingu botnfiska lækkuðu verulega á árunum 1987-1995, en hafa aftur farið hækkandi vegna tveggja sterkra árganga frá árunum 1985 og 1990. Hafrannsóknastofnunin leggur til að sókn í gullkarfastofninn á fiskveiðiárinu 2005/2006 verði takmörkuð þannig að hámarksafli fari ekki yfir 35 þús. tonn. Nýliðun virðist vera léleg allt frá árinu 1991 og því má búast við mun minni afla er fram líða stundir.

Áætlað er að rúm 17 þús. tonn af djúpkarfa hafi veiðst á Íslandsmiðum árið 2004 samanborið við rúm 28 þús. tonn árið 2003 og 33 þús. tonn að meðaltali árin 1996-2000. Samdráttur í afla og sókn á undanförnum árum hefur skilaði sér í auknum afla á sóknareiningu, sem þó er enn lítill. Vísbendingar eru um aukna nýliðun í veiðistofninn þó ástand stofnsins sé enn talið slæmt. Hafrannsóknastofnunin leggur því til að sókn í djúpkarfa á hafsvæðinu frá Austur-Grænlandi um Ísland að Færeyjum verði takmörkuð þannig að hámarksafli fiskveiðiárið 2005/2006 fari ekki yfir 22 þús. tonn. Þessi ráðgjöf er í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins og gildir fyrir allt svæðið frá Austur-Grænlandi um Ísland að Færeyjum.

Karfi í úthafinu veiðist í lögsögum Íslands og Grænlands en einnig á hinum alþjóðlega hluta Grænlandshafs.

Aflinn var áætlaður um 124 þús. tonn árið 2004. Á síðasta ári var afli íslenskra skipa tæp 36 þús. tonn, samanborið við rúm 48 þús. tonn árið 2003. Stór hluti afla Íslendinga veiddist innan íslensku lögsögunnar á meira en 600 m dýpi. Mikil óvissa ríkir um tengsl þess karfa sem veiðist í úthafinu við annan karfa, m.a. á Íslandsmiðum.

Í ljósi niðurstaðna alþjóðlegs rannsóknaleiðangurs í Grænlandshafi og á aðliggjandi hafsvæðum sumarið 2003, lagði Alþjóðahafrannsóknaráðið til að hámarksafli fyrir árið 2005 yrði 41 þús. tonn. Þetta er mikill samdráttur frá árinu á undan, en þá lagði Alþjóðahafrannsóknaráðið til að hámarksafli yrði 120 þús. tonn. Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin (NEAFC) lagði til að afli árið 2005 færi ekki yfir 75 þús. tonn.

Ráðgjafarnefnd Alþjóðahafrannsóknaráðsins mun veita ráðgjöf um karfaveiðar í úthafinu fyrir árið 2006 í október 2005. Mun þar m.a. verða byggt á niðurstöðum mælinga á stofnstærð úthafskarfa í sameiginlegum rannsóknaleiðangri Íslendinga, Þjóðverja og Rússa í júní-júlí 2005.

Síldarstofnar

Á vertíðinni 2004/05 varð síldarafli úr íslenska sumargotsstofninum tæp 115 þús. tonn en leyfðar höfðu verið veiðar á um 115 þús. tonnum. Þrátt fyrir að stærð hrygningarstofnsins árið 2004 sé mjög óviss, er samt sem áður talið að ástand stofnsins sé gott. Lagt er til að hámarksaflinn á vertíðinni 2005/06 verði 110 þús. tonn líkt og undanfarin ár.

Árið 2004 veiddu Íslendingar tæp 103 þús. tonn úr norsk-íslenska síldarstofninum. Heildarveiðin er áætluð 806 þús. tonn. Fyrir árið 2005 lagði Alþjóðahafrannsóknaráðið til 890 þús. tonna aflamark, en ljóst er að meiru hefur verið úthlutað nú þegar.

Aflaheimildir Íslendinga árið 2005 eru tæp 158 þús. tonn. Tillaga Alþjóðahafrannsóknaráðsins um aflamark fyrir árið 2006 mun ekki liggja fyrir fyrr en í haust þar sem vinnunefnd þess um uppsjávarfiska hittist ekki fyrr en í lok ágúst.

Loðnan

Heildaraflinn á loðnuvertíðinni 2004/2005 varð 784 þúsund tonn, en leyft hafði verið að veiða 985 þús. tonn. Eins og um þetta leyti í fyrra hefur ekki tekist að mæla þann hluta loðnustofnsins sem veiðin næstu vertíð mun byggjast á, það er árgangana frá 2002 og 2003. Lítið fannst af þessari loðnu í haustleiðangrinum 2004 og það sem af er þessu ári hefur ís í Grænlandssundi hamlað frekari mælingum. Hafrannsóknastofnunin leggur því til að loðnuveiðar verði ekki leyfðar fyrr en tekist hefur að afla upplýsinga um stærð veiðistofns vertíðarinnar 2005/2006.

Humar

Humaraflinn árið 2004 var 1.437 tonn, samanborið við 1.666 tonn árið 2003. Afli á sóknareiningu (kg/klst. í eitt troll) árið 2004 var 46 kg, miðað við um 52 kg árið 2003 og 44 kg árið 2002. Veiðistofn humars (6 ára og eldri) árið 2005 er nú metinn um 12.700 tonn eða svipaður og áætlað var í síðustu skýrslu. Stofninn minnkaði í sögulega lægð um 1995 sökum slakrar nýliðunar og mikillar sóknar suðaustan lands árin 1991-1994. Vegna sterkari árganga frá 1990-1991 fór nýliðun aftur batnandi á Suðausturmiðum eftir 1995 en hélt áfram að versna á Suðvesturmiðum.

Horfur á nýliðun eru ennþá góðar við Suðausturland en hins vegar er nýliðun enn léleg á miðunum við Reykjanes. Hafrannsóknastofnunin leggur sem fyrr til að aflinn miðist við kjörsókn og að humarafli fiskveiðiárið 2005/2006 verði 1.600 tonn. Einnig leggur stofnunin til að veiðinni verði dreift á milli veiðisvæða með tilliti til nýjustu upplýsinga um stofnstærð hverju sinni.

Kolmunninn

Árið 2004 veiddu Íslendingar 422 þús. tonn af kolmunna. Heildaraflinn árið 2004 í Norður-Atlantshafi er talinn hafa verið um 2,4 milljónir tonna. Bergmálsmælingar á hrygningarstofninum vestur af Bretlandseyjum vorið 2005 benda til að hann hafi minnkað talsvert frá árinu 2004. Alþjóðahafrannsóknaráðið veitir ekki ráðgjöf um hámarksafla fyrir árið 2006 fyrr en í október.

Rækjan

Rækjuafli á grunnslóð minnkaði úr 3.100 tonnum árið 2001 í 520 tonn árið 2004. Ástand rækjustofna á grunnslóð er einkum slæmt þar sem mikið hefur verið af þorski. Má þar nefna Ísafjarðardjúp, Húnaflóa, Skagafjörð, Skjálfanda og Öxarfjörð.

Engar veiðar voru leyfðar á þessum svæðum undanfarin ár. Að þessu sinni leggur Hafrannsóknastofnunin til að upphafsafli verði 500 tonn á komandi fiskveiðiári sem skiptist þannig að í Arnarfirði verði hann 300 tonn og 200 tonn við Snæfellsnes. Veiðar verði ekki hafnar á öðrum svæðum. Tillaga að hámarksafla innfjarða á allri vertíðinni 2005/2006 mun liggja fyrir að lokinni stofnmælingu haustið 2005.

Rækjuafli á djúpslóð minnkaði úr 26 þús. tonnum árið 2002 í tæplega 22 þús. tonn árið 2003 og árið 2004 var aflinn tæp 16 þús. tonn. Stofnvísitala úthafsrækju norðan og austan lands lækkaði mjög árin 1998-1999 og gengu úthafsrækjuveiðar afar illa árið 1999 í kjölfar mikillar þorskgengdar fyrir Norðurlandi árin 1997-1998. Stofnvísitalan hækkaði árið 2000 og mældist svipuð árin 2001 og 2002, lækkaði aftur árið 2003 og enn meir árið 2004 og var sú lægsta frá upphafi á öllu svæðinu frá Norðurkanti til Héraðsdjúps. Veiðar gengu illa árið 2004 einkum er leið á árið.

Stofnmat, sem tekur tillit til afráns þorsks og nýliðunar á rækju, bendir til að stofn úthafsrækju sé minnkandi og stefnir í sömu lægð og var árið 1998.

Hafrannsóknastofnunin leggur til að upphafsafli á úthafsrækju fyrir fiskveiðiárið 2005/2006 verði 2/3 af lokatillögu yfirstandandi fiskveiðiárs, eða 10 þús. tonn. Tillagan verður endurskoðuð haustið 2005 þegar niðurstöður úr stofnmælingu sumarsins liggja fyrir.

Á Dohrnbanka fengust rúm 400 tonn af rækju árið 2004 samanborið við rúm 700 tonn árið 2003.

Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðiráðið (NAFO) lagði til að leyfilegur hámarksafli á öllum rækjumiðum í Grænlandssundi yrði 12.400 tonn árið 2005 fyrir allar þjóðir.