FYRIR nokkrum árum reið yfir ný bylgja í sjónvarpsþáttagerð, svokallaðir raunveruleikasjónvarpsþættir. Þar bauðst áhorfendum að vera fluga á vegg og fylgjast með fólki glíma við ýmsar aðstæður.

FYRIR nokkrum árum reið yfir ný bylgja í sjónvarpsþáttagerð, svokallaðir raunveruleikasjónvarpsþættir.

Þar bauðst áhorfendum að vera fluga á vegg og fylgjast með fólki glíma við ýmsar aðstæður. Þættirnir eru eins ólíkir og þeir eru margir en miða allir að því að fá að gægjast inn í tilbúinn veruleika nokkurra einstaklinga. Survivor varð trúlega vinsælastur þáttanna í upphafi en svo hafa aðrir sótt í sig veðrið jafnhliða vinsældum Survivor .

Nú er svo komið að mér finnst þetta form sjónvarpsþátta orðið frekar þreytt og þá sérstaklega endurtekningar á sömu hugmyndinni að uppbyggingu þátta. Kannski er maður búinn að fullnægja þörfinni fyrir forvitnina um náungann. Eða kannski er maður búinn að sjá í gegnum óraunveruleika þessara þátta sem gefa sig út fyrir það að sjónvarpa raunveruleikanum.

Ég hef fylgst með einni þáttaröð af Survivor , átti mína uppáhaldskeppendur og allt. Þegar næsta þáttaröð hófst ætlaði ég að endurtaka leikinn en komst þá að því að ég var búin að sjá þetta allt áður. Sömu rifrildin, sömu karakterarnir og sömu aðstæður sem komu upp. Það er nefnilega með Survivor eins og svo marga aðra þætti af þessari gerð að hafi maður séð eina þáttaröð, er maður búinn að sjá þær allar.

America's Next Top Model er annað dæmið um skort á fjölbreytileika, svipaðar týpur berjast að sama markmiði með tilheyrandi baktali og grátköstum. The Bachelor/Bachelorette er sama endurtekningin; hópur íðilfagurra karla eða kvenna keppast um hylli einstaklings sem þau vilja öll ólm eyða ævinni með. Þetta er alveg merkilega einhæft sjónvarpsefni, piparsveinninn eða daman eru alveg öldungis óviss um lífsförunautinn fram á síðustu mínútu, en þegar valið hefur farið fram hefði viðkomandi ekki getað hugsað sér neinn annan til að eyða ævinni með.

Um daginn hófust sýningar á nýrri raunveruleikaþáttaröð hér á landi sem nefnist The Contender . Þar eiga nokkrir kraftalegir piltar að keppa um hver þeirra er besti hnefaleikakappinn. Sýnishorn úr þættinum var byggt upp þannig að menn áttu umsvifalaust að verða spenntir fyrir komandi ósætti og óvinskap á milli drengjanna. Það er nefnilega helsti drifkraftur raunveruleikasjónvarpsþátta, mannlegur breyskleiki. Ósætti, grátur, baktal, svik og annað í þeim dúr er nefnilega það sem heldur okkur illkvittnum áhorfendum við skjáinn, ekki satt?

Það væri ekkert gaman að horfa á Survivor ef öll dýrin í skóginum væru vinir og hjálpuðust að við að byggja friðsælt samfélag í sátt og samlyndi úti í auðninni.

Birta Björnsdóttir

Höf.: Birta Björnsdóttir