BRYNJAR Björn Gunnarsson leikur í kvöld sinn 50. A-landsleik fyrir Íslands hönd, gegn Möltu á Laugardalsvellinum.

BRYNJAR Björn Gunnarsson leikur í kvöld sinn 50. A-landsleik fyrir Íslands hönd, gegn Möltu á Laugardalsvellinum. Brynjar er sautjándi knattspyrnumaðurinn frá upphafi sem nær 50 landsleikjum og hann kemst að hlið Árna Sveinssonar frá Akranesi og Gunnars Gíslasonar frá Akureyri í 15.-17. sæti á listanum en þeir spiluðu báðir nákvæmlega 50 landsleiki á sínum tíma.

Brynjar Björn, sem lék mjög vel með Watford í vetur og var annar, á eftir Heiðari Helgusyni, í kjöri á leikmanni ársins hjá félaginu, spilaði sinn fyrsta landsleik gegn Makedóníu á útivelli, í Skopje, í undankeppni HM árið 1997. Hann hefur verið í byrjunarliði Íslands í 44 leikjum af 49 til þessa og skorað þrjú mörk. Gegn Liechtenstein og Írlandi í undankeppni HM 1997 og gegn Frakklandi í leiknum eftirminnilega á Stade de France haustið 1999 þegar frönsku heimsmeistararnir unnu naumlega, 3:2.