Aðalatriðið í fuglaverndun er að halda niðri meindýrum ÞAÐ var furðuleg athugasemd sem umsjónarmaður Útrásar á Rás 1 lét fara frá sér, er hann sagði að það væri maðurinn sem væri mesti skaðvaldurinn í náttúrunni en ekki mávarnir, þeir væru sennilega...

Aðalatriðið í fuglaverndun er að halda niðri meindýrum

ÞAÐ var furðuleg athugasemd sem umsjónarmaður Útrásar á Rás 1 lét fara frá sér, er hann sagði að það væri maðurinn sem væri mesti skaðvaldurinn í náttúrunni en ekki mávarnir, þeir væru sennilega ekki eins miklir skaðvaldar og af væri látið. Ef svo væri af hverju væru þeir þá ekki löngu búnir að eyða öllu fuglalífi?

Það er vissulega maðurinn sem á sökina á stöðugt hnignandi náttúru og dýraríki. En hér á Íslandi nær eingöngu í formi þess að hann er búinn að raska jafnvæginu og eggja- og ungaætum eins og ýmsum mávategundum og hröfnum fjölgar um of á kostnað annarra fugla. Skýringin á að þessir fuglar, með hjálp minksins, eru ekki löngu búnir að útrýma hér öllu mófugla-, kríu- og æðarvarpi er sú að hópur manna úti á landsbyggðinni, sem búa í nánu sambandi við náttúruna, leggja nótt við dag allt vorið við að halda þessum ófögnuði niðri.

Það væri góð hjálp ef þessir svokölluðu fuglavinir legðu sitt af mörkum í raun við að vernda náttúruna og gætu í það minnsta reynt að stinga göt á eggin og steypa undan þessum vargfugli ef þeir treysta sér ekki til að fara með skotvopn. Já, það þýðir bara ekkert að kalla allt ömmu sína í þessum málum. Að pípa eitthvað um endurheimt votlendis er hjómið eitt hjá hinu vandamálinu auk þess sem votlendi er í stöðugri endurheimt vegna breyttra búskaparhátta og margir skurðir sem fyllast upp af sjálfu sér á votlendissvæðum.

Að lokum. Er ekki orðið tímabært að líta á starrann, sem situr orðið í hundraðatali ef ekki þúsunda í mörgum hverfum sem meindýr hér á höfuðborgarsvæðinu, og halda þeim fugli skipulega niðri rétt eins og rottum og kanínum í Vestmannaeyjum sem eru á góðri leið með að útrýma lundanum þar.

Maður getur ekki orðið gefið smáfuglunum í garðinum hjá sér þá situr fólk uppi með starrager sem rænir mann fullum nætursvefni á vorin. Svo tala fuglafræðingar um gáfaðan og skemmtilegan fugl sem hermir eftir öðrum fuglum. Þeir hafa ekki gott tóneyra sem finnst honum takast vel upp í því og gera ekki mun á þrastasöng og starragargi, auk þess sem hann gerir það sjaldan heldur jagast á sama tóninum klukkutíma eftir klukkutíma og oftast fyrir allar aldir á morgnana og er á góðri leið með að ræna mig geðheilsunni og þarf ég orðið að sofa með lokaðan glugga og jafnvel eyrnatappa eins og við stórumferðargötu þegar verst lætur. Það eina sem þessum fugli tekst vel upp er að líkja eftir þjófavörn í bílum. Svo er það umhugsunin hvernig komið sé fyrir fuglalífinu sem gerir mér þennan fugl enn óbærilegri.

Ásdís Arthursdóttir, starfsmaður

í þýskum þjóðgarði.