— Morgunblaðið/Alfons
EF sjávarútvegsráðherra fer að nýbirtum tillögum Hafrannsóknastofnunar um hámarksafla fyrir næsta fiskveiðiár mun verðmæti sjávaraflans aukast lítillega á heildina litið, eða um 0,3%, frá fyrra ári og tekjur af útflutningi vöru og þjónustu um 0,1%.

EF sjávarútvegsráðherra fer að nýbirtum tillögum Hafrannsóknastofnunar um hámarksafla fyrir næsta fiskveiðiár mun verðmæti sjávaraflans aukast lítillega á heildina litið, eða um 0,3%, frá fyrra ári og tekjur af útflutningi vöru og þjónustu um 0,1%. Áhrif þessarar aukningar á gang hagkerfisins verða því óveruleg. Þetta er mat Greiningar Íslandsbanka og kemur fram í Morgunkorni hennar í gær.

Hafrannsóknastofnunin ráðleggur að þorskkvótinn verði minnkaður úr 205 þúsund tonnum í 198 þúsund tonn. Það þýðir að aflaverðmæti mun minnka um u.þ.b. 900 milljónir króna sé miðað við núverandi afurðaverð. Hins vegar má búast við því að aukningin í ýsu- og ufsakvóta muni auka aflaverðmæti um samtals 1.700 milljónir króna. Samanlagt eykst því aflaverðmæti í þessum þremur mikilvægu bolfisktegundum um 800 milljónir króna. Áhrif af minni úthafsrækjukvóta gætu orðið neikvæð um 450 milljónir króna en aukningin í humar hins vegar jákvæð um 30 milljónir króna. Samtals þýðir þetta að aflaverðmætið gæti aukist um 380 milljónir króna miðað við núverandi afurðaverð. Ráðgjöf fyrir aðrar tegundir er í flestum tilfellum lítið breytt á milli fiskveiðiára. T.a.m. er kvóti íslensku sumargotssíldarinnar óbreyttur. Taka ber fram að tillögur um loðnukvóta verða settar fram síðar, eða í upphafi vertíðar. Segir í Morgunkorninu að áhrif tillagna Hafró á fjármálamarkaðinn hafi verið lítil sem engin í fyrradag.