Einn leikenda, Edda Björgvinsdóttir, ver sig fyrir votviðrinu á Gljúfrasteini.
Einn leikenda, Edda Björgvinsdóttir, ver sig fyrir votviðrinu á Gljúfrasteini.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Birtu Björnsdóttur birta@mbl.is NÚ STANDA yfir æfingar á nýju íslensku leikriti í Þjóðleikhúsinu, Fundið Ísland, eftir Ólaf Hauk Símonarson.
Eftir Birtu Björnsdóttur birta@mbl.is

NÚ STANDA yfir æfingar á nýju íslensku leikriti í Þjóðleikhúsinu, Fundið Ísland, eftir Ólaf Hauk Símonarson. Leikritið byggir á nokkrum árum í lífi Halldórs Kiljans Laxness á þriðja áratug síðustu aldar þegar hann dvaldist í Kanada og Bandaríkjunum og freistaði gæfunnar sem kvikmyndahandritshöfundur í draumaborginni Hollywood.

Leikstjóri verksins er Ágústa Skúladóttir. Hún segir hópinn vera farinn að æfa af fullum krafti og að þau séu jafnframt æfingum á verkinu að setja sig inn í og kynna sér það tímabil sem er sögusvið leikritsins.

"Það er spennandi að skoða þetta tímabil í Hollywood út frá upplifunum Laxness," sagði Ágústa.

Leikarar, leikstjóri og aðrir aðstandendur sýningarinnar brugðu undir sig betri fætinum í fyrradag og sóttu Gljúfrastein heim, heimili Halldórs Laxness lengst af.

Þar fór hópurinn í skoðunarferð um húsið og nágrenni þess og fræddist enn frekar um ævi skáldsins sem þau ætla að túlka á sviði Þjóðleikhússins í haust.

Hópurinn lét ekki úrkomu aftra sér og skoðaði umhverfi Gljúfrasteins. Hann heimsótti einnig vinnustofu skáldsins, þar sem það ritaði mörg helstu verk sín, og naut leiðsagnar sögumanns og Halldórs og Auðar Laxness með aðstoð hljómflutningstækja.