Hvalir Veiðar á hrefnu í vísindaskyni samkvæmt áætlun Hafrannsóknastofnunar hafa engin áhrif á stofnstærð hrefnunnar.
Hvalir Veiðar á hrefnu í vísindaskyni samkvæmt áætlun Hafrannsóknastofnunar hafa engin áhrif á stofnstærð hrefnunnar. — Morgunblaðið/Alfons
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÓHÆTT er að veiða allt að 400 hrefnur og 200 sandreyðar árlega hér við land að mati Hafrannsóknastofnunar. Telur hún stofnstærð hrefnu við Ísland vera um 44.000 dýr. Heildarstofn langreyðar á hafsvæðinu frá Austur-Grænlandi að Jan Mayen er talinn 23.

ÓHÆTT er að veiða allt að 400 hrefnur og 200 sandreyðar árlega hér við land að mati Hafrannsóknastofnunar. Telur hún stofnstærð hrefnu við Ísland vera um 44.000 dýr. Heildarstofn langreyðar á hafsvæðinu frá Austur-Grænlandi að Jan Mayen er talinn 23.000 dýr og því telur stofnunin að árleg veiði á 200 langreyðum muni ekki skaða stofninn.

"Stórhvalaveiðar hér við land voru stundaðar með hléum frá landstöðvum í liðlega eina öld eða til ársins 1989," segir í ágripi að ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar. Þar segir ennfremur: "Að meðaltali voru veiddar 234 langreyðar og 68 sandreyðar á ári tímabilið 1948-1985 og 82 búrhvalir árin 1948-1982. Árið 1986 gekk í gildi ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) um tímabundna stöðvun veiða í atvinnuskyni. Í samræmi við ákvæði hvalveiðisáttmálans var hins vegar veiddur takmarkaður fjöldi lang- og sandreyða í rannsóknaskyni árin 1986-1989. Frá árinu 1990 hafa engar veiðar á stórhvelum verið stundaðar frá Íslandi.

200 hrefnur árlega

Hrefnuveiðar voru stundaðar á litlum vélbátum hér við land mestan hluta síðustu aldar. Á árunum 1977-1985 veiddu Íslendingar árlega um 200 hrefnur.

Engar hrefnuveiðar voru stundaðar hér við land á tímabilinu 1986-2002. Samkvæmt talningum sem fram fóru árið 2001 eru um 67.000 hrefnur á Mið-Atlantshafssvæðinu, þar af um 44.000 á íslenska landgrunninu og er stofnstærðin nú nálægt því sem talið er að hún hafi verið áður en veiðar hófust. Þetta gildir hvort sem litið er á Mið-Atlantshafsstofninn í heild sinni eða eingöngu stofninn á íslenska strandsvæðinu.

Hverfandi líkur eru á að árlegar veiðar á 200 hrefnum næstu 20 ár muni færa stofnstærðina niður fyrir 80% af upprunalegri stofnstærð. Á sama hátt er ólíklegt að árlegar veiðar á 400 hrefnum færi stofninn niður fyrir 70% á sama tímabili. Ljóst er að hrefnuveiðar þær sem hófust 2003 í rannsóknaskyni og nema samtals 200 dýrum á 3-4 árum, munu ekki hafa teljandi áhrif á stofninn og samrýmast markmiðum um sjálfbæra nýtingu. Komi til atvinnuveiða á hrefnu leggur Hafrannsóknastofnunin því til að veiðum verði haldið innan við 400 dýr á ári og jafnframt að veiðum verði háttað í samræmi við dreifingu hrefnu á íslenska landgrunninu.

Að beiðni stjórnvalda samdi Hafrannsóknastofnun rannsóknaáætlun veturinn 2002-2003 til tveggja ára sem fól í sér veiðar á 100 hrefnum, 100 langreyðum og 50 sandreyðum hvort ár. Í ágúst 2003 hófst sá hluti áætlunarinnar sem snýr að hrefnu og voru veiddar 36 hrefnur í rannsóknaskyni árið 2003 og 25 hrefnur árið 2004.

Langreyðum fjölgar

Samkvæmt talningum voru um 18.900 langreyðar á hafsvæðinu Austur-Grænland/Ísland/Jan Mayen (EGI) árið 1995. Niðurstöður talninga frá 2001 sýna marktæka fjölgun langreyða og að heildarstofninn sé nú um 23.000 dýr. Árlegar veiðar á 150 langreyðum næstu 20 ár eru taldar sjálfbærar verði eingöngu veitt á hefðbundnum hvalveiðimiðum vestur af landinu. Ef veiðar eru einnig stundaðar utan þess svæðis eru veiðar á 200 langreyðum innan marka sjálfbærni. Fyrirhugaðar veiðar á langreyði í vísindaskyni (100 dýr á ári í tvö ár) munu því ekki hafa teljanleg áhrif á stofninn.

Talningar benda til að sandreyðarstofninn sem Íslendingar hafa veitt úr sé a.m.k. um 10.500 dýr. Þar sem veiðar úr stofninum voru mjög takmarkaðar á síðustu áratugum má telja víst að þær hafi ekki haft alvarleg áhrif á stofninn.

Selum fækkar

Alls veiddist 521 selur við Ísland árið 2004, þar af 146 landselir og 295 útselir. Heildarveiðin árið 2003 var 926 dýr. Samkvæmt talningum í ágúst 2003 var stofnstærð landsels metin um 10.000 dýr, samanborið við 15.000 dýr árið 1998. Stofninn hefur minnkað jafnt og þétt síðan árið 1980, er hann var um og yfir 30.000 dýr.

Útselsstofninn við Ísland var síðast talinn í heild árið 2002 og var þá metinn um 5.500 dýr. Stofninn hefur minnkað umtalsvert frá 1990 þegar hann var talinn 12.000 dýr. Aukatalning á hluta útbreiðslusvæðisins árið 2003 benti til um 3% fækkunar frá árinu áður."