TÆPLEGA 650 erlendir stúdentar voru í námi við Háskóla Íslands síðastliðinn vetur, og hefur þeim fjölgað um tæplega 250 frá árinu 2000.

TÆPLEGA 650 erlendir stúdentar voru í námi við Háskóla Íslands síðastliðinn vetur, og hefur þeim fjölgað um tæplega 250 frá árinu 2000. Þar af voru tæplega 300 skiptistúdentar í tengslum við samninga á borð við Erasmus og Nordplus-stúdentaskiptaáætlanirnar. Aðrir erlendir stúdentar við Háskólann koma ýmist á eigin vegum eða voru búsettir hér á landi fyrir. Skráðir nemendur við Háskóla Íslands voru rúmlega níu þúsund sl. skólaár.

Í gær hafði Háskóli Íslands afgreitt um 2.500 umsóknir nýnema og er gert ráð fyrir að allir þeir sem uppfylla formleg skilyrði um skólavist fái inngöngu. Hátt í 1.700 umsóknir höfðu fyrir skömmu borist Háskólanum í Reykjavík en skólinn getur tekið við 900 nemendum.

Gríðarlegur áhugi

Að sögn Karítasar Kvaran, forstöðumanns Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins, hefur skrifstofan þegar tekið við tæplega 300 umsóknum frá skiptistúdentum vegna næsta hausts. Gríðarlegur áhugi sé á að komast í Háskóla á Íslandi, t.d. á vegum Erasmus, og mun fleiri komi hingað en fari utan sem Erasmus-stúdentar, eða 293 útlendingar á móti 224 Íslendingum í fyrra.

Hluti þessara nemenda er eitt misseri við skólann en aðrir tvö.

Þjóðverjar voru langfjölmennasti hópur erlendra stúdenta við HÍ í fyrra, eða 86. Næst komu Svíar, 48 talsins. Erlendir stúdentar frá tæplega 70 þjóðríkjum voru við HÍ í fyrra.