Carlos Mesa
Carlos Mesa
La Paz. AP. AFP. | Mótmæli gegn stjórnvöldum í Bólivíu héldu áfram í höfuðborginni La Paz í gær, degi eftir að Carlos Mesa forseti hafði sagt af sér embætti. Kröfðust mótmælendur þess að Hormando Vaca Diez, forseti þingsins, segði einnig af sér en skv.

La Paz. AP. AFP. | Mótmæli gegn stjórnvöldum í Bólivíu héldu áfram í höfuðborginni La Paz í gær, degi eftir að Carlos Mesa forseti hafði sagt af sér embætti. Kröfðust mótmælendur þess að Hormando Vaca Diez, forseti þingsins, segði einnig af sér en skv. stjórnarskrá ætti hann að taka við af Mesa. Þá vilja þeir að boðað verði til kosninga í landinu.

"Það er skylda mín að segja að ég get ekki gert fleira," sagði Mesa er hann ávarpaði þjóð sína í beinni sjónvarpsútsendingu á mánudag. "Af þeirri ástæðu segi ég lausri stöðu minni sem forseti lýðveldisins."

Sakaði forsetinn mótmælendur um óbilgirni í tilfinningaþrungnu ávarpi sínu og sagði þá færa sér það í nyt að hann hefði lofað að beita ekki valdi gegn þeim.

Vaca Diaz þingforseti kallaði þingið saman í gær til að kjósa nýjan eftirmann Mesa. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar í landinu sögðust hins vegar efast um vægi afsagnar Mesa því hann sagði einnig af sér 7. mars síðastliðinn, en þá samþykkti þingið ekki afsögn hans.

Mesa tók við forsetaembættinu í október árið 2003 eftir að fyrirrennari hans, Gonzalo Sanchez de Lozada, var hrakinn frá störfum af mótmælendum sem andmæltu því að hann skyldi leyfa erlendum fyrirtækjum að flytja gas úr landinu.

Bólivía, fátækasta ríki Suður-Ameríku, býr yfir næst stærstu gasauðlindum í álfunni. Aðeins auðlindir Venesúela eru meiri.

Bólivíska þingið samþykkti nýlega lög sem kveða á um aukinn hlut Bólivíu af öllu gasi sem framleitt er í landinu. Erlend fyrirtæki segja lögin jafngilda eignarnámi, en mótmælendur segja þau alls ekki ganga nógu langt. Þeir krefjast algjörrar þjóðnýtingar. Auk þess krefjast þeir þess að stjórnarskrá landsins verði endurrituð og að þar fái frumbyggjar landsins, indjánar, meira vægi.

Um 100.000 manns mótmæltu

Í síðustu viku boðaði Mesa til stjórnarskrárfundar en mótmælendur sögðu það ekki nóg. Um 100.000 manns söfnuðust saman á götum La Paz á mánudag; umkringdu Quechua og Aymara indjánar, bændur, námamenn, stúdentar, kennarar, kakóbaunaræktendur og meðlimir verkalýðsfélaga forsetahöllina. Múgurinn hrópaði einum rómi: "Borgarastríð!" og kastaði logandi hvellhettum að höllinni.

Að sögn lögreglu voru 26 óeirðaseggir handteknir fyrir að brjóta rúður í hóteli, ræna verslanir og hindra umferð um alla helstu þjóðvegi til borgarinnar. Mótmælin í Bólivíu hafa nú staðið í þrjár vikur og mikill skortur er orðinn á nauðsynjavörum og eldsneyti í La Paz og flestir íbúanna ganga til vinnu því á um áttatíu stöðum hafa mótmælendur sett upp vegartálma úr grjóti, rusli og logandi dekkjum.