Jóhann Ingi Sigurðsson er einn skipuleggjenda hátíðarinnar en hann segir hana vera stærsta viðburð ársins fyrir metal- og harðkjarnaaðdáendur.
Jóhann Ingi Sigurðsson er einn skipuleggjenda hátíðarinnar en hann segir hana vera stærsta viðburð ársins fyrir metal- og harðkjarnaaðdáendur. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingu Rún Sigurðardóttur ingarun@mbl.is HARÐKJARNA- og rokkhátíðin MOTU-FEST stendur yfir dagana 8.-11. júní og hafa fjórar erlendar hljómsveitir staðfest komu sína á hátíðina.
Eftir Ingu Rún Sigurðardóttur ingarun@mbl.is

HARÐKJARNA- og rokkhátíðin MOTU-FEST stendur yfir dagana 8.-11. júní og hafa fjórar erlendar hljómsveitir staðfest komu sína á hátíðina. Þetta er annað árið í röð sem hátíðin er haldin en hún er stærri en í fyrra og dreifist á þrjú kvöld, sem haldin verða í Hellinum, Grandrokki og gamla Sjónvarpshúsinu.

Hátíðin hefst í kvöld með tónleikum bandarísku sveitarinnar Paint It Black og fleiri sveita í Hellinum og er þeim fylgt fast eftir á föstudagskvöldinu með tónleikum dönsku metalsveitarinnar Urkraft og fleiri knárra sveita. Lokaspretturinn verður svo á laugardaginn þegar dönsku sveitirnar Lack, Urkraft og frönsku metalrisarnir í Scarve gera allt snælduvitlaust ásamt rjómanum af harðkjarna- og metalböndum Íslands.

Jóhann Ingi Sigurðsson hlakkar til hátíðarinnar en hann er einn skipuleggjenda hennar. "Þetta er stærsti viðburður ársins fyrir þennan hóp," segir hann.

Á laugardeginum verður hægt að kaupa ýmsan varning af hljómsveitunum, einnig mat og drykk og verða einhver samtök og hópar með kynningar af á starfsemi sinni. "Dýraverndunarsinnar verða með bás þarna og ég á líka von á því að grænmetisætur verði með kynningu á sinni starfsemi," segir hann.

Armbönd verða til sölu sem gilda á öll kvöldin, samtals sautján hljómsveitir, og kosta þau 3.500 krónur. Forsala er hafin í Smekkleysu Plötubúð. "Það er nálægt helmingur armbanda búinn þannig að þetta er fljótt að fara," segir Jóhann Ingi. Einnig er selt á einstaka viðburði en armbönd hafa forgang ef stefnir í húsfylli.

Hátíðin hefur vakið töluverða athygli erlendis fyrir fjölbreytta og ferska dagskrá, segir Jóhann Ingi en hvað er það sem þykir vera öðru vísi? "Yfirleitt er þetta flokkað í metalsenur annars vegar og hins vegar í harðkjarnasenur. Þessum tónlistarstefnum er hvergi blandað saman í sama mæli og hérna. Ísland er svo lítið og þetta er ekki það stór hópur sem hlustar á hvort fyrir sig," segir hann og bætir við að það sé kostur. "Þetta kemur í veg fyrir þröngsýni."

Stærsta hljómsveitin í ár er fyrrnefnd frönsk metalsveit, Scarve. "Þeir koma beint af tónleikaferðalagi með hljómsveit sem heitir Meshuggah og er mjög stór innan þessarar senu. Það er ákveðinn gæðastimpill," segir hann.

Jóhann Ingi segir marga erlenda blaðamenn hafa sýnt áhuga á hátíðinni og á jafnvel von á því að einhverjir þeirra komi til landsins. Hátíðin hefur líka verið á lista vefsíðna sem halda utan um hátíðir af þessu tagi þannig að hún hefur spurst vel út.

Skipulagning tónleikanna er í sjálfboðavinnu. "Þetta er gert á öðrum grundvelli en með stærri tónleika. Allir sem vinna að þessu gera það í sjálfboðavinnu. Ef það verður einhver gróði af hátíðinni í ár fer hann bara í hátíðina á næsta ári. Við viljum fá sérstök bönd hingað, það er það sem drífur okkur áfram, bönd sem yrðu annars ekki fengin hingað."

Hátíðin hefst í Hellinum, Hólmaslóð 2, kl. 19.30 í kvöld. Ekkert aldurstakmark. Aðgangseyrir 1.000 kr. Fram koma Paint It Black, Myra, Isidor og Mania Locus. www.motu-fest.org