[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.
Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is

FARÞEGAR á leið til eða frá Keflavíkurflugvelli geta ekið 15-20 mínútna leið í gegnum göng frá álverinu í Straumsvík að Álftanesi og þaðan yfir Skerjafjörðinn og niður í miðbæ ef hugmyndir Stefáns Jóns Hafsteins, borgarfulltrúa R-listans, verða að veruleika.

Stefán Jón kynnti hugmyndir um framtíðarskipulagsmál í Reykjavík á borgarstjórnarfundi í gær en að hans mati skiptir samgöngunet við útlönd miklu máli, bæði fyrir Íslendinga og erlenda ferðamenn. Um leið yrði mögulegt að færa innanlandsflug til Keflavíkur. Hann sagði þó að einnig kæmi til greina að ríki og borg ynnu saman að því að færa Reykjavíkurflugvöll á annan stað í nágrenni borgarinnar.

Taka ekki Vatnsmýrina með

Stefán Jón gagnrýndi sjálfstæðismenn í borgarstjórn fyrir að taka Vatnsmýrina ekki með inn í framtíðarskipulag sitt sem kynnt var um daginn en fagnaði engu að síður tillögum þeirra og sagði þær blöndu af gömlum og nýjum hugmyndum.

Hann vill skapa stóran miðborgarkjarna með Vatnsmýrina á aðra hönd og gjörbreytt hafnarsvæði á hina. "Hér þarf engar landfyllingar, enga byltingu í samgöngum heldur aðeins dug og þor til að láta hlutina gerast á svæðum sem nú þegar kalla á uppbyggingu," sagði Stefán Jón og ítrekaði jafnframt vilja Reykjavíkurlistans til að efna til alþjóðlegrar hugmyndasamkeppni um þennan stóra draum.

Hringbraut um borgarkjarnann

Stefán Jón lagði áherslu á að Vatnsmýrin og Álftanes yrðu ein skipulagsheild og tengd með braut yfir Skerjafjörðinn. Í tillögum sjálfstæðismanna eru sambærilegar hugmyndir en þar er gert ráð fyrir göngum undir fjörðinn.

Að mati Stefáns Jóns má með tiltölulega einföldum samgöngubótum, sem þegar eru á dagskrá, skapa hringbraut um borgarkjarnann sem létta myndi á umferð og stytta samgönguleiðir. "Í raun skapast tveir hringir um miðborgina í heild og þar með gjörbreytast samgönguforsendur sem nú eru á þverveginn eða langsum í borgarlandinu með tilheyrandi flöskuhálsum," sagði Stefán Jón og ítrekaði að Sundabraut ætti að vera forgangsverkefni í samgöngumálum þjóðarinnar. Án hennar væri ómögulegt að reisa glæsilega íbúðabyggð í Gufunesi og Geldinganesi í 5-7 mínútna fjarlægð frá miðbænum.

"Ég vil undirstrika að þessar hugmyndir byggja á einni grundvallarhugsun. Að framkvæma fyrst það sem er nærtækast, að framkvæma fyrst það sem byggir á kostum sem þegar eru fyrir hendi og að framkvæma fyrst það sem styrkir þá byggð sem fyrir er," sagði Stefán Jón og bætti við að tillögur sjálfstæðismanna brytu gegn þessari hugsun og væru óhugsandi á næstu árum. "Borg sem á það tækifæri sem Vatnsmýrin er þarf ekki að búa sér til annað og verra með uppfyllingum og þvinguðum samgöngumannvirkjum á haf út," sagði Stefán Jón.

Segir hugmyndir Sjálfstæðisflokks vekja upp umræðu

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði greinilegt að framtíðarsýn og hugmyndir Sjálfstæðisflokksins hefðu vakið upp mikla umræðu um skipulagsmál. "Þessar hugmyndir eiga eftir að framkalla fleiri og nýjar hugmyndir," sagði Vilhjálmur en ítrekaði að þær eigi eftir að ræða við borgarbúa.

Vilhjálmur sagðist blása á þá gagnrýni að tillögur sjálfstæðismanna um landfyllingar og byggð í eyjaunum í Kollafirði væru allt of dýrar í framkvæmd. Lóðaverð á þessu svæði verði mun ódýrara en t.d. í Norðlingaholti þar sem lóðagjöld eru komin upp í 25-30% af heildarverði meðalstórrar íbúðar í fjölbýli. Þá væri gerð góð grein fyrir umferðarmálum í tillögunum með stofnæð sem lægi frá Örfirisey í Engey og yfir á Kringlumýrarbraut.