STÉTTARFÉLAG NBA-leikmanna og forráðamenn deildarinnar hafa reynt undanfarna mánuði að endurnýja samning sinn sem rennur út í sumar.
STÉTTARFÉLAG NBA-leikmanna og forráðamenn deildarinnar hafa reynt undanfarna mánuði að endurnýja samning sinn sem rennur út í sumar. Flestir sérfræðingar um málefni deildarinnar héldu að það væri bara dagaspursmál hvenær þessir aðilar tilkynntu nýtt samkomulag. Á dögunum tók David Stern, forseti NBA, sig hins vegar til og tilkynnti að hann hefði slitið samningaviðræðum við stéttarfélag leikmanna. Stern sagði ástæðuna þá að forysta stéttarfélagsins hefði gengið á bak munnlegra loforða eftir að valdamiklir umboðsmenn nokkurra leikmanna hefðu fundað með stéttarfélaginu og þrýst á forráðamenn þess að ná betra samkomulagi. Enginn heldur að þessir aðilar muni ekki ná saman á næstu mánuðum, enda staða beggja aðila góð. Bæði leikmenn og eigendur liðanna standa traustum fótum efnahagslega og hafa miklu að tapa. Nú líta menn til NHL-íshokkídeildarinnar, sem ekki var leikið í á síðasta vetri vegna verkbanns eigenda liðanna. Bæði sjónvarpsstöðvar og meginstyrktaraðilar deildarinnar hafa nú sagt upp samningum sínum við NHL-deildina og er staðan á þeim bænum mjög alvarleg.