Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir fjallar um geðsjúkdóma og úrræði við þeim: "Umhverfið og tækifæri til að aðstoða aðra eru lykilatriði sálfélagslegrar nálgunar."

ÞEGAR geðlyf komu fyrst á markað um miðja síðustu öld þótti það marka tímamót í sögu geðsjúkra og menn töluðu um byltingu. Nú hefur til dæmis komið í ljós að geðklofasjúklingar á Vesturlöndum eru lítið betur settir en þeir voru fyrir 50 árum. Nútímaúrræði í geðlækningum byggjast fyrst og fremst á efnafræðilegum skýringum á sjúkdómunum. Bandaríska geðheilbrigðisstofnunin (National Institute of Mental Health) sýndi fram á það um 1960 að þeir skjólstæðingar sem höfðu fengið svokölluð "neuroleptics" lyf voru líklegri til endurinnlagnar og að þróa með sér króníska sjúkdóma, en samanburðarhópur sem fékk lyfleysu. Hvers vegna skoðuðu menn þessar niðurstöður ekki nánar? Rannsóknir sem framkvæmdar voru á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunar (WHO) í kringum 1990 sýndu ennfremur fram á að ef sá sem sturlast býr í einhverju fátækari landanna er hann líklegri til að pluma sig eftir nokkur ár í samfélagi manna, en sá sem býr í vestrænu löndunum. Hvað er það sem fátækari löndin gera rétt og vestrænu löndin fara á mis við? Breskir rannsóknarmenn athuguðu 2000 rannsóknir tengdar geðlyfjum yfir 50 ára tímabil og sáu að langflestar þeirra könnuðu aðeins hvort geðræn einkenni hefðu minnkað, ekki hvort fólk plumaði sig betur í lífinu, félagslega eða atvinnulega. Stöðugt koma á markaðinn ný geðlyf sem eiga að vera betri en þau gömlu. En hvort þau eru betri eða ekki vitum við ekki fyrr en eftir 40 - 50 ár. Lyfin koma heldur aldrei í staðinn fyrir tengsl við fjölskyldu og vini, atvinnuþátttöku, hlutverk í samfélaginu og áreiti sem fylgir þjóðfélagsþátttöku. Vanþróuðu löndin hafa ekki efni á sértækum úrræðum eins og þeim að einangra geðsjúka. Þar eru geðsjúkir á meðal manna, halda tengslum við sitt nánasta umhverfi og vinna við hlið þeirra sem hafa fulla starfsgetu. Tilfinningu geðsjúkra um að vera að leggja eitthvað af mörkum og skipta máli er því viðhaldið. Umhverfið og tækifæri til að aðstoða aðra eru lykilatriði sálfélagslegrar nálgunar. Lyf eiga að vera stoðþjónusta sálfélagslegrar nálgunar, ekki öfugt.

Í dag eru tilraunaverkefni í gangi úti í hinum stóra heimi, þar sem lyf eru ekki aðaláherslan heldur er geðsjúkum gefið tækifæri á að vera í öruggu umhverfi, fá leyfi til að tjá sterkar tilfinningar, eru aðstoðaðir við að leysa ágreiningsefni, fá félagslegan stuðning, fjölskyldumeðferð og starfsendurhæfingu. Ef skoðuð er sjálfsbjargargeta og atvinnuþátttaka skjólstæðinga eftir útskrift standa þessi tilraunaverkefni sig ekki síður og jafnvel betur en hefðbundin úrræði.

Árangur sálrænnar meðferðar hefur verið skoðaður yfir nokkra áratugi. Svo virðist sem 40% árangursins séu vegna umhverfisþátta, t.d. hvort viðkomandi hafi virkt stuðningsnet, búi í heilbrigðu umhverfi og stundi vinnu. Þriðjung árangurs má þakka meðferðaraðila, persónulegum einkennum hans, á hvern hátt hann tengist skjólstæðingnum, hvort hann geti fundið til með honum, sýnt væntumþykju, staðið með honum, sýnt samkennd og samþykki hann eins og hann er. Þriðji og síðasti hluti árangurs sálrænnar meðferðar tengist vonum og væntingum skjólstæðings og trú hans á meðferðinni. Þetta undirstrikar að sálræn meðferð ein eða lyfjameðferð ein og sér duga skammt ef menn eru einangraðir, hafa ekki hlutverk, atvinnu, enga von um betri framtíð, búa í heilsuspillandi umhverfi, lifa við fátækt og útskúfun. Breyttur lífsstíll hefur líka verið settur fram sem lausn en það er ekki nóg ef þættir í samfélaginu eru heilsuspillandi. Þar má nefna þætti eins og viðhorf og gildismat. Rannsóknir gefa vísbendingar um að félagslegur og fjárhagslegur rammi hafi meiri áhrif á heilsu manna en lífshegðun. Þrátt fyrir sömu sjúkdómsgreiningu og svipaða meðferð verður árangur mismunandi allt eftir huglægri tilfinningu einstaklingsins, hvernig hann sér sig í samspili við umhverfið. Fötlun skiptir minna máli en tilfinningin um hvort þú upplifir þig sem þátttakanda með valmöguleika, hefur tilfinningalegan stuðning og getur sinnt þeim hlutverkum sem skipta þig máli. Rannsóknir sýna æ ofan í æ með óyggjandi hætti mikilvægi vinnu og á hvern hátt hún hefur áhrif á sjálfstraust og lífsgæði og kemur í veg fyrir innlagnir. Beinar tengingar eru á milli atvinnuleysis og aukinnar tíðni geðsjúkdóma.

Það sem reynst hefur geðsjúkum verst er að útiloka þá frá vinnu og einangra þá frá öðru fólki með sértækum úrræðum og meðferðum sem nánast eingöngu snúast um lyf. Lyf hylja og dempa tilfinningar án þess að fólk geri sér grein fyrir rótum vandans. Markmiðið með allri þjónustu er að auka þátttöku fólks í samfélaginu og finna því stað þar sem það getur nýtt hæfileika sína og komið að notum þrátt fyrir takmarkanir. Bætt geðheilsa er því samfélagslegt átak. Gagnkvæmur ávinningur alls samfélagsins hlytist ef til að mynda fyrirtæki settu á oddinn á sína stefnuskrá að auka atvinnutækifæri fyrir fólk með skerta starfshæfni.

Höfundur er forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs LSH og lektor við HA.

Höf.: Elín Ebba Ásmundsdóttir fjallar um geðsjúkdóma, úrræði við þeim