Helene Cooper, sem er í hópi leiðarahöfunda dagblaðsins The New York Times , skrifar grein, sem birtist í International Herald Tribune í gær og rekur sögu Charity Kaluki Ngilu, heilbrigðisráðherra Kenýa, sem hefur sett allt á annan endann þar í landi.

Helene Cooper, sem er í hópi leiðarahöfunda dagblaðsins The New York Times , skrifar grein, sem birtist í International Herald Tribune í gær og rekur sögu Charity Kaluki Ngilu, heilbrigðisráðherra Kenýa, sem hefur sett allt á annan endann þar í landi.

Fyrir ári hitti hún fyrir utan sveitasjúkrahús konu, sem hélt á níu ára syni sínum í fanginu. Drengurinn hafði sýkst af slæmu vatni, var alsettur sárum og meðvitundarlaus. Móðirin hafði farið með drenginn í sjúkrahúsið en verið vísað brott vegna þess að hún átti enga peninga. Ngilu reiddist og tók drenginn með sér í ráðherrabílnum á sjúkrahús þar sem hún krafðist þess að honum yrði sinnt.

Þetta kvöld fór heilbrigðisráðherrann um borð í litla vél, sem átti að fljúga til Nairobi. Flugvélin lenti í óveðri og miklum vindhviðum. Farþegarnir voru vissir um að allir myndu farast og byrjuðu að ræða hvað þeir myndu gera öðruvísi í lífi sínu kæmust þeir af. "Ég vildi deyja vitandi það að ég hefði breytt einhverju. Að ég hefði meðan ég var heilbrigðisráðherra breytt einhverju í raun," sagði Ngila. Engan sakaði í fluginu, en tveimur dögum síðar gaf Ngila út tilkynningu, sem kom allri stjórninni að óvörum, þ.á m. forsetanum, þar sem hún hafði ekki ráðfært sig við nokkurn mann. Hún lýsti yfir því að Kenýa myndi bjóða öllum Kenýabúum heilbrigðistryggingu."

Cooper heldur áfram: "Allt fór á annan endann í landinu. Mwai Kibaki forseti bað hana að draga yfirlýsinguna til baka, að því er Ngilu segir. Hún neitaði. Ráðherrar sem studdu forsetann veittust opinberlega að Ngilu. Sama gerðu fyrirtækin, sem óttuðust að þurfa að tryggja starfsmenn sína. Kvartanir þeirra voru réttmætar: Hvernig ætti Kenýa að bjóða öllum sjúkratryggingu þegar 56% þjóðarinnar eru undir fátæktarmörkum?

Ngilu lét hins vegar ekki deigan síga. Hún fór á milli þorpa og skoraði á fólk að krefjast umönnunar á sjúkrahúsum. "Bjóðið þeim einfaldlega byrginn," sagði hún. "Ekki bíða þangað til þið deyið." Frumkvæði Ngilu er ef til vill óraunhæft, en ef viljinn er fyrir hendi meðal hinna ríku þjóða heims er hægt að koma í veg fyrir að hún þurfi að ganga á bak orða sinna.