Kate Moss tók á móti verðlaununum í hátískukjól frá Dior.
Kate Moss tók á móti verðlaununum í hátískukjól frá Dior. — AP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÁHRIFAMIKIÐ fólk úr tískuheiminum var saman komið í New York á mánudagskvöldið þegar tískuverðlaun Samtaka fatahönnuða í Bandaríkjunum, CFDA, voru veitt.

ÁHRIFAMIKIÐ fólk úr tískuheiminum var saman komið í New York á mánudagskvöldið þegar tískuverðlaun Samtaka fatahönnuða í Bandaríkjunum, CFDA, voru veitt. Vera Wang var valin kvenfatahönnuður ársins en stjörnurnar hafa oft valið kjóla hennar fyrir rauða dregilinn. "Ég er mjög upp með mér. Jafnvel á mínum aldri geta draumar ræst," sagði hún. John Varvatos var valinn herrafatahönnuður ársins.

Ofurfyrirsætan Kate Moss fékk sérstök verðlaun fyrir að vera mikill áhrifavaldur í tískuheiminum og fetar þar með í háhæla fótspor Söruh Jessicu Parker og Nicole Kidman. Enginn annar en David Bowie afhenti Kate verðlaunin.

"Hún klæðir sig á þann hátt að það þýðir eitthvað. Það sem Kate klæðist fara aðrir í. Og það er í alvöru Kate sem velur fötin en ekki stílisti," sagði Peter Arnold, framkvæmdastjóri CFDA.

Diane von Furstenberg var heiðruð fyrir þriggja áratuga framlag sitt til tískuheimsins. "Mér finnst mjög gaman að kollegar mínir heiðri mig. Þetta er mikil samkeppni en við erum samt sem áður í sama fagi. Við hjálpum hvert öðru og hvetjum hvert annað áfram," sagði hún í samtali við AP .

Af öðrum helstu verðlaunum má nefna að Marc Jacobs var valinn fylgihlutahönnuður ársins. "Mér finnst fylgihlutir ekkert annað en tíska, þetta er sami hluturinn," sagði hann.

Til viðbótar fékk Gilles Bensimon hjá Elle sérstök verðlaun fyrir að hafa skapað tískuna sjónrænt. Alber Elbaz, hönnuður Lanvin, fékk verðlaun sem besti alþjóðlegi hönnuðurinn. Loks fékk Norma Kamali verðlaun frá stjórn CFDA en hún játaði að vera ábyrg fyrir axlapúðatískunni undir lok áttunda áratugarins.

Þetta var í 24. skipti sem verðlaunin eru veitt en sigurvegararnir eru valdir af rúmlega 450 fulltrúum fatahönnuða, blaða, sölufólks og stílista.