Sigríður Ingibjörg Claessen fæddist í Reykjavík 1. apríl 1943. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 23. maí síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Dómkirkjunni 1. júní.

Ég minnist Siggu, elskulegrar frænku minnar og vinkonu, með þökk fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman, eins lengi og ég man eftir mér. Sem barn naut ég oft ástríkis foreldra hennar á yndislegu heimili þeirra á Langholtsveginum og þrátt fyrir smávegis aldursmun gaf Sigga sér ávallt tíma til þess að sinna mér og lét mig finna að hjá henni væri ég alltaf velkomin.

Þegar við urðum fullorðnar fylgdumst við enn að og eignuðumst fyrstu börnin okkar með litlu millibili og saman áttum við ógleymanlegar stundir á merkum tímamótum, eins og við fermingar, útskriftir og giftingar þeirra. Aldrei rofnuðu böndin, heldur styrktust þau með árunum og á milli fjölskyldna okkar ríkti mikill kærleikur.

Yfir Siggu var mikil reisn sem einkenndi allt sem hún tók sér fyrir hendur í lífinu og var alltaf jafnánægjulegt að koma til hennar og Júlla þar sem gestrisnin var í fyrirrúmi. Samheldni þeirra hjóna og fjölskyldunnar allrar var eintök og bera dæturnar þrjár ástríki hennar og glæsileika glöggt vitni.

Ég aldrei hef lofað að brautin sé bein,

og gullskrýddir blómstígar alla leið heim.

Ég get ekki lofað þér gleði án sorgar,

á göngu til himinsins helgu borgar.

En lofað ég get þér aðstoð og styrk,

og alltaf þér ljósi þó leiðin sé myrk.

Mundu svo barn mitt að lofað ég hef,

að leiða þig sjálfur hvert einasta skref.

(Höf. ók.)

Ég kveð elsku frænku mína með söknuði og virðingu og bið Almættið að blessa hana og geyma í nýjum heimkynnum og gefa ástvinum hennar styrk og vissu um endurfundi.

Helga Kr. Bjarnason.