Reykjanes Náttúra og saga Suðurnesja er viðfangsefni nýútskrifaðra svæðisleiðsögumanna. Hér er hverasvæði og Reykjanesviti í baksýn.
Reykjanes Náttúra og saga Suðurnesja er viðfangsefni nýútskrifaðra svæðisleiðsögumanna. Hér er hverasvæði og Reykjanesviti í baksýn. — Morgunblaðið/ÞÖK
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is Keflavík | Fjórtán svæðisleiðsögumenn sem útskrifuðust á Suðurnesjum um helgina og einn kennari þeirra hafa stofnað sjálfseignarstofnun í þeim tilgangi að koma þekkingu þeirra á framfæri.
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is

Keflavík | Fjórtán svæðisleiðsögumenn sem útskrifuðust á Suðurnesjum um helgina og einn kennari þeirra hafa stofnað sjálfseignarstofnun í þeim tilgangi að koma þekkingu þeirra á framfæri. Þeir vinna að því að koma upp vef til að kynna Suðurnesin og skapa vettvang til sölu á skipulögðum ferðum um svæðið. Ánægja er með námið og er stefnt að nýju námskeiði.

"Það er mikill hugur í mönnum," segir Bergur Sigurðsson heilbrigðisfulltrúi sem kosinn var í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar á stofnfundi hennar. Stofnunin var stofnuð strax að lokinni formlegri útskrift svæðisleiðsögumannanna síðastliðinn laugardag. "Við ætlum að búa okkur til vettvang, í fyrstu heimasíðu, þar sem við getum unnið að markmiðum okkar," segir Bergur. Félagið er byggt þannig upp að eingöngu leiðsögumenn geta gerst aðilar að sjálfseignarstofnuninni en allir félagsmenn mynda fulltrúaráð sem stjórnar félagsskapnum. Kristján Pálsson var kosinn formaður fulltrúaráðsins en í stjórn með Bergi voru kosin þau Reynir Sveinsson, Iða Brá Vilhjálmsdóttir, Rannveig L. Garðarsdóttir og Hildur Harðardóttir.

Það kostar að minnsta kosti milljón að stofna fyrirtæki og koma upp vandaðri heimasíðu. Hópurinn fékk vilyrði fyrir 500 þúsund króna styrk hjá atvinnuþróunarsviði Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og félagsmenn leggja sjálfir í púkkið á sjötta hundrað þúsund krónur. Hugmyndin er að félagið fái hlutdeild í tekjum af þeim ferðum sem seldar eru á vefnum og geti þannig staðið undir rekstrinum.

Engin fordæmi

Rannveig L. Garðarsdóttir segist ekki vita til þess að slíkur félagsskapur hafi verið myndaður annars staðar. Hún segir að þeir sem stunduðu svæðisleiðsögumannanámið hafi aflað sér gífurlegrar þekkingar á mismunandi sviðum. Mikilvægt sé að halda utan um þessi gögn og þekkingu og nýta þau. "Við höfum áhuga á að koma sögu og náttúru Suðurnesja á framfæri og teljum grundvöll til þess að gera það með þessum hætti. Svæðið er í næsta nágrenni höfuðborgarinnar og síðan höfum við Keflavíkurflugvöll. Við förum í þetta full af bjartsýni enda er þetta óskaplega spennandi verkefni," segir Rannveig.

Hún segir að vefurinn verði væntanlega tilbúinn í haust. Hugmyndin sé að hver félagsmaður hafi sína eigin heimasíðu þar á bak við þar sem skipulagðar verði ferðir á sérsviði viðkomandi. Síðan verði allar ferðirnar kynntar og seldar á vef sjálfseignarstofnunarinnar. Rannveig nefnir fuglaskoðunarferðir, gönguferðir um Keflavík og ferðir tengdar þjóðsögum auk þess hægt verði að sérsniða ferðir eftir óskum fyrirtækja og hópa.

"Þetta er kraftmikill hópur sem hefur mikla þekkingu á sögu og náttúru Suðurnesja og hefur nú aflað sér þekkingar til að miðla henni. Það er nauðsynlegt að nýta þetta fólk," segir hún.

Áhugi að halda áfram

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) stóð fyrir svæðisleiðsögumannanáminu í samvinnu við Leiðsöguskólann. Er þetta sextán eininga nám sem hófst í byrjun árs 2004 og hafa nemendur stundað það með vinnu. Að sögn Guðjónínu Sæmundsdóttur, forstöðumanns MSS, var farið vítt yfir sviðið, jarðfræði svæðisins, gróður og dýralíf, tungumálanotkun, leiðsögutækni, svæðalýsingar og markaðsfræði svo nokkuð sé nefnt. "Svæðisleiðsögumaður á að kunna allt um viðkomandi svæði, í þessu tilviki Reykjanesskagann, og námið veitir honum atvinnuréttindi sem leiðsögumaður á svæðinu," segir Guðjónína. "Það var líka markmið út af fyrir sig að fjölga þeim sem hafa þekkingu á svæðinu og vita hvað það hefur upp á mikið að bjóða og stuðla þannig að kynningu þess," segir hún.

Guðjónína er ánægð með hvernig til tókst. "Þetta var skemmtilegt og fræðandi. Svo var hópurinn sérstaklega góður því að í honum var fólk með mikla reynslu og þekkingu, áhrifafólk í ferðaþjónustunni á svæðinu og jafnvel fólk sem hafði tekið að sér leiðsögn," segir Guðjónína.

"Eftir því sem maður lærir meira þeim mun betur áttar maður sig á því hvað maður veit lítið. Ég hélt að ég hefði nokkuð góða þekkingu á svæðinu en annað kom í ljós," segir Rannveig L. Garðarsdóttir þegar hún er spurð að því hvort hún hefði lært eitthvað nýtt í svæðisleiðsögunáminu. Hún er útskrifuð frá Ferðamálaskólanum í Kópavogi og hefur unnið við Upplýsingamiðstöð Reykjaness í tvö ár. Hún segir að námið í Leiðsöguskólanum hafi verið ólíkt þessu. Í svæðisleiðsögunáminu sé farið miklu dýpra í málin á þessu tiltekna svæði. "Þetta hefur verið áhugavert og skemmtilegt," segir hún.

Guðjónína segir að áhugi sé á því hjá MSS að efna til annars námskeiðs fyrir svæðisleiðsögumenn á Suðurnesjum. Mun það hefjast í byrjun næsta árs, ef næg þátttaka fæst.