Grímur Atlason
Grímur Atlason
Grímur Atlason fjallar um skipulagsmál: "Það að stjórnmálin í Reykjavík snúist um hjóm eins og auglýsingamennsku er aumkunarvert."

SKIPULAGSMÁL eru mál málanna nú sem endranær í Reykjavík. Fyrir 23 árum féll vinstrimeirihlutinn í Reykjavík eftir aðeins 4 ára valdasetu. Ástæðan var ekki vöntun á leikskólaplássum, stopular almenningssamgöngur eða gríðarlegur eiturlyfjavandi. Vinstrimeirihlutinn féll vegna þess að hann studdi hugmyndir þess efnis að skipulögð yrði byggð fyrir ofan Rauðavatn. Sjálfstæðismenn æddu fram og gangrýndu og héldu fram að þarna undir væri eingetin systir Heklu. Davíð vann og ríkti næstu 12 árin. Það eru allir búnir að gleyma sprungunni fyrir ofan Rauðavatn og Morgunblaðið sem var helsti boðberi Heklu-véfréttarinnar er í þann veginn að flytja alla sína starfsemi á toppinn á gígnum.

Þetta eru skipulagsmál. Fólk hefur endalausan áhuga á þeim og skoðanir. Þetta vita sjálfstæðismenn. Máttleysislegar athugasemdir þeirra um borgarmál undanfarin 11 ár hafa engu skilað og flokkurinn sem áður hafði fast fylgi upp á 48-60% siglir nú í stöðugu 30-40% fylgi í höfuðborginni. Það svíður og ekki síst vegna þess hversu gríðarlegum peningum hefur verið varið án þess að þessu hafi verið breytt.

Nú er ár í kosningar. Og peningarnir hafa vaknað. Dustað er rykið af gömlum skipulagshugmyndum og auglýsingateiknarar settir í aukavinnu til þess að pakka þeim inn í nýjar gjafaumbúðir. Fyrir 4 árum hét það Geldinganes en í ár er það Eyjabyggð. Það gildir einu hvort borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi hakkað hugmyndir um Viðeyjarbyggð í sig fyrir 2 árum - í ár hefur dr. Spuni talið sig hafa fundið vænlega leið til árangurs. Síðan koma u.þ.b. 200 milljónir í pottinn og stríð auglýsingamennskunnar hefst.

Það að stjórnmálin í Reykjavík snúist um hjóm eins og auglýsingamennsku er aumkunarvert. Það er hins vegar verra hvað fjölmiðlar falla kirfilega í gryfjuna og lepja vitleysuna upp eins og nýjan sannleik. Vissulega skiptir máli hvernig við skipuleggjum borgina okkar og hvernig hún lítur út en það eru mýmörg mál sem eru mikilvægari borgarbúum en hæð húsa. Hvað um umhverfismál? Hvað um skólagöngu barnanna okkar? Hvað um kjör þeirra lægst launuðu? Eru þetta ekki mikilvæg mál sem mætti gefa frekari gaum?

Leiðarar Morgunblaðsins hafa verið fullir af lofi um rottuganginn í Viðey og dauða lundans í Akurey en þó hefur Styrmir lokað auganu fyrir græna svæðinu í Vatnsmýrinni sem sjálfstæðismenn geta ekki fyrir sitt litla líf skipulagt án flugvallar. En Moggamenn eru á vegferð til þess að koma R-listanum frá völdum rétt eins og árið 1982 - það verður að skilja aðdáun þeirra í því ljósi.

Hins vegar er óskiljanlegri skoðun Sigmundar Ernis í Fréttablaðinu um helgina. Þar heldur hann því fram að miðbærinn sé tómur nema á kvöldin og um helgar þegar hann fyllist af drykkjusvolum. Hann segir miðbæinn í vanda. Hér er enn önnur ranghugmyndin og smáatriðadýrkunin. Miðbær Reykjavíkur er fallegur; þar eru skemmtilegar verslanir sem ganga vel; þar eru góð kaffihús og veitingahús á heimsmælikvarða; þar búa barnafjölskyldur og fólk á öllum aldri: Miðbærinn lifir og er ekki að fara í eyði og hann er fullur af fólki á daginn líka. Sigmundur ætti fara vestar en í Lídó til að skoða hinn sanna miðbæ og mannlífið þar, á öðrum stundum en á nóttunni.

Það er gott að búa í Reykjavík. Hins vegar þarf meiri félagshyggju og auknar umhverfisáherslur til þess að borgin haldi áfram að dafna. Ef menn ætla að tala um skipulagsmál og gera það af einhverri alvöru ættu þeir að byrja á skrefi 1 í stað þess að hoppa beint í skref 3 og 4. Fyrsta skrefið er að byggja í Vatnsmýrinni og flytja innanlandsflugið. Ef borgarstjórnarkosningarnar eiga að snúast um skipulagsmál ættu þær að snúast um raunveruleikann en ekki útópískar auglýsingabrellur. Best væri þó ef auglýsingastofunum yrði gefið langþráð sumarfrí og raunveruleg málefni kæmust á dagskrá.

Höfundur er stjórnarmaður í VGR.

Höf.: Grímur Atlason fjallar um skipulagsmál