Benedikt Már Aðalsteinsson fæddist á Akureyri 17. nóvember 1957. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 24. maí síðastliðinn og fór útför hans fram frá Kópavogskirkju 31. maí.

Okkur systkinin langar að minnast elsku frænda okkar og þakka þær stundir sem við áttum með honum. Þótt hann væri í blóma lífsins þegar hann veiktist tók hann veikindum sínum og það sem þau boðuðu af slíku æðruleysi að ekki er annað hægt en dást að þeim styrk sem hann bjó yfir. En við vitum að það tók hann sárt að þurfa að skilja við ástvini sína svo fljótt. Við söknum Benna en trúum því að nú sé hann hjá Guði almáttugum.

Þú, Kristur, ástvin alls, sem lifir,

ert enn á meðal vor.

Þú ræður mestum mætti yfir

og máir dauðans spor.

Þú sendir kraft af hæstum hæðum,

svo himinvissan kveikir líf í æðum,

og dregur heilagt fortjald frá.

Oss fegurð himins birtist þá.

Þín elska nær til allra manna,

þótt efinn haldi þeim,

og lætur huldar leiðir kanna

að ljóssins dýrðarheim.

Vér skulum þínir vottar vera

og vitnisburð um stórmerki þín bera,

því þú ert eilíf ást og náð

og öllum sálum hjálparráð.

(Valdimar V. Snævarr.)

Elsku Jóhanna, Addi, Íris, Snjólaug og Anna, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð og biðjum góðan Guð að vernda ykkur og styrkja.

Sigmundur, Anna og Garðar.

Nú er kær vinur okkar látinn. Það var sárt að heyra a ð Benedikt væri farinn, eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdó m. Benedikt, eða Benni eins og við kölluðum hann, var alltaf svo hress og kátur og það eru margir sem gætu lært ýmislegt af honum. Hann tók þá ákvörðun strax eftir að hann greindist með krabbamein að njóta þess tíma sem hann ætti eftir ólifað með fjölskyldunni sinni, í stað þess að leggja árar í bát, sem er þó svo auðvelt við slíkar aðstæður.

Benni var fyrirmyndarstarfsmaður hjá Reykjavíkurborg sem ómetanlegt var að fá að vinna með. Hann vann verkin sín vel og var fljótur að finna lausn á þeim vandamálum sem upp komu í starfinu. Eftir að Benni er farinn er skarðið stórt og vandfyllt, og söknuðurinn mikill.

Benni hafði gaman af því að fylgjast með fótbolta og Arsenal var uppáhaldsliðið hans. Það var stoltur faðir sem fór með fjölskyldunni sinni að fylgjast með draumaliðinu spila í London fyrir skömmu síðan. Hann var mikill húmoristi og gerði góðlátlegt grín að þeim sem héldu með öðrum liðum.

Við eigum eftir að sakna Benna sárt og vinnustaðurinn verður ekki sá hinn sami eftir að hann kvaddi þennan heim.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum

lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem

gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að

kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.) Við sendum innilegar samúðarkveðjur til ástvina Benedikts um leið og við minnumst hans með þakklæti og virðingu.

Starfsfólk Borgarbókhalds.

Þú stóðst sem stoltur tindur,

sterkur, hvergi smeykur.

Nú kaldur vorsins vindur,

veröld okkar leikur.

Við kveðjum hrygg í hjarta

og huga, sannan vin.

Þér fylgir bænin bjarta,

þig blessi ljóssins skin.

Orðin hverfa líkt og vindsins verk.

Þau veðrast fljótt í tímans hröðu önn.

En minning vinar lifir lengi sterk.

Svo ljúf og sönn.

Hinsta kveðja,

félagarnir í Laugar-

dagsboltanum.