"ÞETTA var nokkuð erfiðara en okkur grunaði, enda var mikill snjór á leiðinni og margir vegarslóðarnir voru enn þá bara drullusvað," segir Hollendingurinn Joeri Rooij, sem lagði ásamt vini sínum, Jesaja Bouman, í ferð þvert yfir hálendið, frá...

"ÞETTA var nokkuð erfiðara en okkur grunaði, enda var mikill snjór á leiðinni og margir vegarslóðarnir voru enn þá bara drullusvað," segir Hollendingurinn Joeri Rooij, sem lagði ásamt vini sínum, Jesaja Bouman, í ferð þvert yfir hálendið, frá Blönduósi til Hellu 26. maí sl.

Ferð félaganna var óvenjuleg að því leyti að þeir fóru hana á sérútbúnum hollenskum hlaupahjólum með risastórum torfærudekkjum að hætti Íslendinga. Fóru þeir m.a. yfir Kjöl, Tungnaá, Kerlingarfjöll og Þjórsá. Tilgangurinn var að safna áheitum til hjálpar fólki sem þjáist af slímseigjusjúkdómi (Cystic Fibrosis) og vekja um leið athygli á sjúkdómnum.

Klöngrast með þung hjól

Þetta er önnur ferð þeirra Joeri og Jesaja hingað til lands af þremur, en ferðir þeirra ganga undir nafninu "Triple Expeditions". Árið 2001 fóru þeir hringveginn á línuskautum til styrktar fólki sem þjáist af Duchenne vöðvasjúkdómi. Á næsta ári munu þeir síðan koma hingað til lands á ný og gera tilraun til að fara yfir Vatnajökul á nokkurs konar seglskíðum eða -þotum. "Nú þegar erum við búnir að safna um 11.000 evrum, en þegar við komum aftur til Hollands munum við halda happdrætti þar sem m.a. verða í boði ferðir til Íslands, myndavélar og fleira og við vonum að þá nái upphæðin upp í rúmar 15.000 evrur," segir Joeri.

Eins og áður segir reyndist ferðin þeim félögum erfið og þurftu þeir stundum að klöngrast með hjólin yfir miklar ógöngur og yfir ár. "Á tímabili komumst við um níu kílómetra á dag með tíu tíma gangi, svo erfitt var hálendið yfirferðar, en það er ótrúlega fallegt og þessi ferð var alveg frábær í alla staði," segir Jesaja, sem starfar í netgeiranum í Hollandi. "Svo fórum við í Bláa lónið til að láta þreytuna líða úr okkur þegar við komum til byggða nú á mánudaginn. Það var alveg frábært."