"Nú er ég skýjum ofar," segir Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor HR.
"Nú er ég skýjum ofar," segir Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor HR. — Morgunblaðið/Sverrir
HÁTT í 1.700 umsóknir hafa borist um nám í Háskólanum í Reykjavík (HR), en skólinn getur tekið við ríflega 900 nýjum nemendum, að sögn Guðfinnu S. Bjarnadóttur rektors í samtali við Morgunblaðið. "Mér þótti mikil bjartsýni að spá 1.

HÁTT í 1.700 umsóknir hafa borist um nám í Háskólanum í Reykjavík (HR), en skólinn getur tekið við ríflega 900 nýjum nemendum, að sögn Guðfinnu S. Bjarnadóttur rektors í samtali við Morgunblaðið.

"Mér þótti mikil bjartsýni að spá 1.500 umsóknum og var með það sem "skýjamarkmið", eins og ég kalla það," sagði Guðfinna. "Mér þótti afar spennandi að fá svo margar umsóknir í nýjan sameinaðan skóla svo nú er ég skýjum ofar!"

Guðfinna sagði að hafna þyrfti fjölda efnilegra umsækjenda og það þætti sér ákaflega leiðinlegt. "Þegar umsækjendur eru svo margir sem raun ber vitni eru innan um þá sem fá neitunarbréf umsækjendur sem eiga fullt erindi í háskóla og verða örugglega mjög góðir stúdentar."

Aldrei fleiri umsóknir

Fjöldi umsókna um skólavist hefur aldrei verið meiri en nú í HR. Segir í tilkynningu frá skólanum, að þegar miðað sé við heildarfjölda umsókna í HR og Tækniháskóla Íslands í fyrra séu umsóknir um 70% fleiri í ár.

Í tilkynningunni segir að nú sé unnið að því að fara yfir allar umsóknir sem borist hafa og stefnt er að því að svara öllum umsóknum þegar í þessari viku. "Okkar stefna er að taka vel á móti hverjum og einum einstaklingi og við skoðum allar umsóknir og fylgigögn mjög ítarlega."

Tekið er tillit til ýmissa þátta annarra en einkunna við mat á umsóknum, svo sem áhugasviða og framtíðaráforma nemenda. Guðfinna segir að það verði úr vöndu að ráða við val á nemendum. Í mörgum fögum verði því miður að synja helmingi stúdenta, eða jafnvel meira en helmingi stúdenta, um skólavist. Hún hvetur þá, sem ekki komast að í skólanum í haust, að láta það ekki á sig fá heldur halda ótrauð áfram í aðra skóla eða senda HR umsókn aftur að ári.