Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir að það að stjórnarskrá Evrópusambandsins (ESB) var felld í þjóðaratkvæði í Hollandi og Frakklandi og þjóðaratkvæði frestað í Bretlandi geri sambandið aðgengilegra fyrir Ísland.
Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir að það að stjórnarskrá Evrópusambandsins (ESB) var felld í þjóðaratkvæði í Hollandi og Frakklandi og þjóðaratkvæði frestað í Bretlandi geri sambandið aðgengilegra fyrir Ísland. Davíð Oddsson utanríkisráðherra segir að þessi staða hafi engin sérstök áhrif fyrir Ísland nema að á meðan ESB taki ekki á sínum innri málum sé öll umræða um vaxandi samband annarra þjóða við sambandið í bið.

"Ég tel að það að þessi stjórnarskrá var felld geri Evrópusambandið aðgengilegra fyrir Ísland í framtíðinni," segir forsætisráðherra. "Stóru tíðindin í þessu að mínu mati eru að þeir sem vildu ganga lengst í samrunaferlinu hafa orðið undir. Það hefur aldrei verið nokkur áhugi fyrir því á Íslandi að eiga aðild að einhverju sem heitir sambandsríki í Evrópu. En við eins og Norðmenn þurfum að fylgjast vel með þróuninni á næstunni og meta stöðuna. Að mínu mati dregur þessi staða úr því að menn haldi áfram að vinna að því - að mínu mati óraunhæfa verkefni - að Evrópa verði einhvers konar sambandsríki. Ég tel að þessi niðurstaða sýni að það er ekki stuðningur við það meðal þessara þjóða. Þess vegna tel ég að það Evrópusamband sem verður til í framhaldi af þessu sé aðgengilegra fyrir lönd eins og Norðurlöndin með sínar lýðræðishefðir og sína áherslu á að þjóðríkin starfi áfram með eðlilegum hætti en deili fullveldi sínu á ákveðnum sviðum."

Utanríkisráðherra segir að staða stjórnarskrár ESB hafi engin sérstök áhrif fyrir Íslendinga. "Ekki önnur en þau að á meðan að ESB tekur ekki á sínum innri málum þá er öll umræða um vaxandi samband annarra þjóða við sambandið í bið. Það hlýtur að vera, við sjáum það m.a. á afstöðunni í Noregi. Það hægist á öllu slíku. Meginatriðið er að ESB taki sér tak, það er tækifæri til þess á leiðtogafundinum sem verður innan viku, það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir bregðast við."

Stjórnarskráin var í raun fallin um leið og fyrsta ríkið hafnaði henni, segir Davíð. "Ég tel mikilvægt að ESB nýti sér þessa niðurstöðu með skynsamlegum hætti, segi að þarna hafi fólkið fengið að ráða einhverju og tekið verði fullkomið mið af því, í stað þess að berja höfðinu í steininn og segja að þrátt fyrir þetta eigi að fara fram einhvers konar staðfestingarstarfsemi sem er ekki hægt að framkvæma."