Skarphéðinn Kristinn Sverrisson fæddist í Reykjavík 25. nóvember 1981. Hann lést af slysförum 27. maí síðastliðinn. Foreldrar hans eru Guðrún Lofthildur Skarphéðinsdóttir, f. 25.1. 1949, d. 13.8. 1982, og Sverrir Jónsson, f. 4.1. 1950. Foreldrar Guðrúnar eru Erla Kristín Egilson, f. 13.3. 1924, og Skarphéðinn Kristinn Loftsson, f. 27.7. 1922, d. 28.6. 2001. Foreldrar Sverris eru Hólmfríður Kristjánsdóttir, f. 1.9. 1907, d. 22.1. 2001, og Jón Guðmundsson, f. 10.3. 1919. Systir Skarphéðins er Erla Jóna, f. 26.8. 1974. Sambýlismaður hennar er Andri Ottó Ragnarsson, f. 16.10. 1974. Sonur þeirra er Aron Logi, f. 28.12. 2003.

Sambýliskona Sverris er Rannveig Sigurgeirsdóttir, f. 12.11. 1964.

Skarphéðinn ólst upp í Reykjavík. Eftir grunnskólanám stundaði hann nám um tíma í Borgarholtsskóla í bíliðnadeild. Hann vann síðan ýmis störf, var bílstjóri undanfarin fjögur ár hjá Íslandspósti, en hafði nýlega hafið störf hjá Atlantsolíu. Hann var mikill áhugamaður um bíla og var félagi í Fornbílaklúbbi Íslands.

Skarphéðinn var ókvæntur og barnlaus.

Skarphéðinn Kristinn verður jarðsunginn frá Laugarneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Hóglega, hæglega

hnígur þá sól að viði

- tíminn líður líður

með ljúfum niði

og fegurðin andar á vöggu lífsins friði.

(Jóh. úr Kötlum.)

Skarphéðinn Kristinn Sverrisson fórst í bílslysi 27. maí sl. Líkt og við hin fór hann um braut lífsins þennan vordag. Ekur snemma morguns út úr bænum. Fer um kyrran Hvalfjörð. Vélardynur tveggja ökutækja rýfur kyrrðina. Bílarnir rekast á. Aftur ríkir kyrrð. Þögn. Lífsljós annars ökumannsins hefur slokknað.

Sorgartíðindin berast. Hulunni er svipt af léttleika tilverunnar. Botnlaust gap sársauka og saknaðar opnast. Huggunin fjarri.

Foreldrar Skarphéðins, þau Sverrir Geir Jónsson föðurbróðir minn og Guðrún Skarphéðinsdóttir, bjuggu með litla dóttur sína Erlu Jónu á Akureyri þegar ég var þar í menntaskóla.

Seinna, í Barðavoginum í Reykjavík, fæddist þeim sonurinn Skarphéðinn Kristinn. Tilvera litlu fjölskyldunnar brast skyndilega er Guðrún varð bráðkvödd og féll frá eiginmanni sínum og börnum. Við móðurmissinn var Skarphéðinn aðeins níu mánaða. Skarphéðinn naut ætíð ástúðar heimilisins, umhyggju afa sinna Skarphéðins og Jóns, elsku ammanna Erlu og Fríðu, tryggðar móður- og föðursystkinanna Stefáns, Ásdísar og Garðars, fjölskyldna þeirra og vináttu félaga.

Skarphéðinn var gleðigjafi, léttur, kvikur, gáskafullur og ljúfur. Síðast hittumst við þ. 2. maí í sjötugsafmæli pabba. Framtíðin blasti við Skarphéðni. Bílar og bifvélafræði voru hans ástríða. Hann var fullur tilhlökkunar. Ný, metnaðarfull atvinna beið hans sem bílstjóra hjá Atlantsolíu. Lífið tók nýja stefnu. Stjarna hans skein skær. Ungur drengur var orðinn að fullorðnum, ábyrgum einstaklingi, tilbúnum að axla lífið.

Í dag kl. 15 kveðjum við Skarphéðin hinstu kveðju við athöfn í Laugarneskirkju. Við Max og Ingibjörg Iris Mai Svala biðjum að fjölskylda hans, vinir og vinnufélagar fái huggun og styrk. Megi vængir frelsarans umvefja ungan frænda um alla eilífð. Drottinn blessi minningu Skarphéðins Kristins Sverrissonar.

Guðrún Dager Garðarsdóttir

og fjölskylda.

Nú hefur Skarphéðinn Kristinn, frændi minn og vinur, kvatt þennan heim. Það hefur hann gert svo miklu fyrr en nokkurn óraði fyrir og eftir standa þeir sem hann þekktu og elskuðu og spyrja sig spurninga sem engin svör fást við. Hann hefur nú hlotið þann dóm sem enginn flýr í fyllingu tímans en þó þykir manni ósanngjarnt hversu snemma hans tími kom.

Þegar hugurinn hvarflar aftur til liðinna stunda er margs góðs að minnast af Skarphéðni frænda. Ávallt léttur í lund og tilbúinn að sjá spaugilegar hliðar á viðfangsefnum sínum og samferðafólki, þá var hann oft og tíðum hrókur alls fagnaðar í hópi fjölskyldu og vina.

Frændi minn var ekki allra en hann reyndist vinur því fólki sem hann kynntist og átti samleið með. Þeim sem Skarphéðni kynntust á þann hátt varð snemma ljóst hversu vinhollur og traustur hann var. Ávallt var það hann sem var fyrstur á staðinn ef eitthvað þurfti að gera, hvort sem flytja þurfti húsgögn eða draga bilaðan bíl, alltaf var hægt að stóla á greiðasemi hans. Það er eðliskostur sem gerir menn að traustum og góðum vinum, vinum sem sárt er saknað í erli hversdagsins og þegar á reynir.

Frá blautu barnsbeini var Skarphéðinn mikill áhugamaður um bíla og allt sem þeim viðkom. Hann átti mikið safn leikfangabíla í æsku sem litla frænda hans þótti ekki leiðinlegt að komast í. Þegar komið var á bílprófsaldurinn var sem hann spryngi út og ófáir voru þeir bíltúrarnir sem við frændurnir fórum um allar götur og öll hverfi Reykjavíkur og nágrennis. Sérstaklega er mér minnisstæður bíltúrinn sem við frændurnir áttum vestur á Snæfellsnes í apríl síðastliðnum, þá var glatt á hjalla. Það reyndist okkar síðasti bíltúr að sinni en hver veit nema þeir verði fleiri þegar leiðir okkar liggja saman að nýju.

Við frændurnir urðum nánari þegar ég kom til náms í Reykjavík, heim til afa og ömmu í Barðavoginn. Skarphéðinn bjó þar í sama húsi ásamt Sverri föður sínum og Erlu Jónu systur sinni. Í Barðavoginum áttum við Skarphéðinn okkar skjól en heimili afa og ömmu var heimili okkar beggja, hans eftir að hann missti móður sína svo skyndilega aðeins átta mánaða gamall og mitt er í bæinn var komið. Það var gott að búa í Barðavogi og alltaf gat ég stokkið niður til Sverris og þeirra ef eitthvað vantaði og eins voru þær ófáar heimsóknirnar sem við fengum á efri hæðina frá Sverri, Erlu og Skarphéðni.

Við ævilok þess góða drengs sem Skarphéðinn var er margt að þakka og margs að minnast. Ég á stóra frænda margt að þakka, hann reyndist mér á öllum stundum góður og sannur vinur. Nú heldur maður lífsins göngu áfram fátækari en áður en á sama tíma þakklátur fyrir það sem gefið var og nú er tekið aftur.

Megi algóður Guð rita nafn Skarphéðins frænda á lífsins bók, þar á nafn hans heima og minning hans meðal okkar sem eftir lifum.

Stefán Einar.

Þær sorgarfréttir sem við fengum föstudaginn 27. maí sl. voru ólýsanlega sárar. Hvað getur maður sagt eða gert? Það er engan veginn hægt að sætta sig við að horfa á eftir litla frænda sínum falla frá svona í blóma lífsins en það er víst eitthvað sem við verðum að reyna að lifa með.

Erla Jóna og Skarphéðinn voru tvö systkinin og misstu þau ung móður sína og ólust því upp hjá Sverri föður sínum. Þau bjuggu í sama húsi og Erla amma og Skarphéðinn afi og því var alltaf mjög spennandi hjá okkur systkinunum að koma til Reykjavíkur og hitta frændsystkinin. Við töluðum alltaf um það að við værum eiginlega eins og einn systkinahópur því við vorum öll svo náin. Þegar við systkinin fórum síðan að tínast koll af kolli til Reykjavíkur í framhaldsskólanám þá urðu samverustundirnar mun fleiri og við höfum alltaf verið miklir vinir. Heimili ömmu og afa í Barðavoginum var okkar griðastaður, þar hittumst við yfirleitt hvort sem það var fyrirfram skipulagt eða bara tilfallandi. Þar var alltaf glatt á hjalla og mikið hlegið.

Skarphéðinn var mjög skemmtilegur krakki, alltaf mjög þægur og hvers manns hugljúfi. Hann var með óseðjandi bíladellu og var varla farinn að tala þegar hann var farinn að þekkja allar bílategundirnar í sundur. Bílaáhuginn dró Skarphéðin í Borgarholtsskóla þar sem hann lærði bifvélavirkjun og átti hann skammt eftir til að ljúka því námi. Hann tók meirapróf og var nýlega farinn að vinna við akstur olíubíls og var virkilega ánægður með það. Það gladdi okkur mikið hversu vel honum gekk og nefndi hann það nýlega við okkur að hann hefði hug á að fjárfesta í íbúð með haustinu.

Skarphéðinn var þeim eiginleika gæddur að ef maður hitti hann þá mátti alveg gera ráð fyrir einhverjum gullkornum því hann var með orðheppnari mönnum sem við höfum kynnst. Hann var líka með sérlega smitandi hlátur og mátti oft heyra hláturrokurnar á milli hæða upp til ömmu og afa ef Skarphéðinn var niðri hjá sér að horfa á grínmynd.

Í byrjun apríl fórum við fjölskyldan saman upp á Snæfellsnes þar sem við höfðum leigt stórt hús og eyddum þar heilli helgi öll saman. Þar áttum við frábærar stundir saman og er okkur mjög dýrmætt í dag að Skarphéðinn skyldi koma og dvelja með okkur þar. Þar var hann eins og venjulega hrókur alls fagnaðar og hélt uppi fjörinu. Hann var einstaklega góður við litlu frændsystkin sín og þurftu þau ekki að hafa mikið fyrir því þessa helgi til að fá hann til að snúa snúsnúbandinu fyrir sig. Það fær mann til að hugsa um það hversu mikilvægt er að fjölskyldur gefi sér tíma fyrir sína nánustu og njóti þess að vera saman.

Það er með miklum trega sem við kveðjum Skarphéðin frænda okkar. Hann var ein sú ljúfasta manneskja sem við höfum þekkt og vildi alltaf öllum vel. Það er mjög skrítið til þess að hugsa að hans muni ekki njóta lengur við þegar við hittumst og höldum "ömmukvöldin" okkar. Minningin um góðan dreng mun lifa í hjörtum okkar.

Kristín María Stefánsdóttir,

Þórunn Erla Stefánsdóttir.

Í dag kveðjum við Skarphéðin frænda sem okkur þótti svo vænt um. Við munum aldrei gleyma öllum góðu minningunum sem við eigum um þig. Allar stundirnar sem við áttum hér heima með þér, jólin heima hjá ömmu og afa og gamlárskvöldin sem við áttum saman. Allar sumarbústaðarferðirnar okkar í Selvíkina var nokkuð sem við krakkarnir og þú biðum eftir að fara í á hverju sumri. Alltaf varst þú tilbúinn að keyra okkur og hjálpa okkur þegar við þurftum á að halda, sama hvað þú hafðir mikið að gera. Við þökkum fyrir allan þann tíma sem við fengum að eiga með þér.

Guð geymi þig, elsku frændi.

Elsku Sverrir og fjölskylda, Erla, Jón afi, mamma og pabbi. Megi guð vernda ykkur og styrkja á þessum erfiðu tímum.

Systkinin

Jón Þór og Eyrún.

Í dag kveð ég elskulegan frænda minn. Það er erfitt að koma orðum að öllu því sem fer í gegnum huga minn á þessari stundu. Lífið virðist svo óréttlátt, nú þegar komið er að kveðjustund. Þetta er alltof snemmt.

Skarphéðinn var ljúfur og góður strákur sem auðvelt var að líka við. Hann var einlægur, hjálpsamur og hafði þægilega nærveru. Skarphéðinn var alltaf til í að bralla eitthvað, hvort sem það tengdist bílum eða ekki. Bílar voru hans aðaláhugamál frá unga aldri, og þar var hann á sínum heimavelli.

Ég er þakklát fyrir þann tíma sem við fjölskyldan eyddum saman helgina á Stóra Kambi á Snæfellsnesi í apríl síðastliðnum. Það var notalegt að vera saman, og það var mikið hlegið. Oftar en ekki að sögunum hans Skarphéðins, enda hafði hann góða kímnigáfu. Hann hafði skemmtilegan hlátur sem smitaði jafnan út frá sér, og heyrðist hlátur hans langar leiðir.

Erla systir hans hugsaði vel um bróður sinn eftir að þau misstu móður sína. Þau voru alltaf mjög náin. Skarphéðinn var lánsamur að eiga hana að.

Það hefur stórt skarð myndast í okkar litlu fjölskyldu, Skarphéðins verður sárt saknað.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð

hjartans þakkir fyrir liðna tíð

lifðu sæll á ljóssins friðarströnd

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsd.)

Elsku Skarphéðinn, ég veit að vel hefur verið tekið á móti þér á nýja staðnum og að þú ert í öruggum örmum móður þinnar og afa okkar. Það er svo sárt að sjá eftir þér, en ég vil þakka þér fyrir þann tíma sem við eyddum saman. Ég mun geyma minningarnar um þig á öruggum stað í hjarta mínu. Með Guðs styrk munum við halda áfram. Mér þykir vænt um þig.

Þín frænka,

Ásgerður.

Skarphéðinn, kæri vinur, þín verður sárt saknað. Ég á mjög erfitt með að trúa því að þú hafi farið svona skjótt frá okkur, svona ungur, allt lífið framundan.

Ég man að síðast þegar ég talaði við þig, þá varstu svo ánægður í nýju vinnunni þinni, það var rétt fyrir hvítasunnu. Ég minnist mest þegar við steggjuðum Sæma bróður. Þá ákváðum við að gera eitthvað við bílinn hans. Þú ætlaðir að setja raksápu á hann en við enduðum á því að setja ónýta felgu undir hann. Ég, þú og Óli hlógum alveg rosalega mikið. Því kvöldi mun ég aldrei gleyma.

Elsku Skarpi, ég vona að þér líði vel þar sem þú ert. Ég er mjög þakklátur fyrir þær stundir sem við áttum saman.

Hér kveðjum við með fallegu ljóði eftir Bubba Morthens:

Þar sem englarnir syngja sefur þú,

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni,

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði, vinur minn kær,

Faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær.

Aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

Svo vöknum við með sól að morgni.

Við vottum öllum aðstandendum Skarphéðins okkar dýpstu samúð.

Hvíldu í friði, elsku vinur.

Markús Sævar Gíslason

og fjölskylda.

27. maí 2005 er dagur sem seint mun líða okkur úr minni, það er dagurinn sem kær vinur okkar Skarphéðinn lést í hræðilegu slysi. Á svona stundu fer maður ósjálfrátt að rifja upp minningar sem maður á um viðkomandi. Við kynntumst Skarpa í Borgarholtsskóla, við eiginlega vitum ekki hvernig, hann var bara allt í einu kominn inn í okkar litla en góða vinahóp og fór ekkert þaðan aftur. Það voru ófáar bíóferðirnar eða út að borða á Stælinn sem við fórum saman og eftir að við keyptum okkar fyrstu íbúð varð hann eins og einn af fjölskyldunni. Við áttum það til að verja löngum stundum við videogláp og spjall, mjög oft langt fram undir morgun. Þetta voru mjög svo notalegar stundir sem við áttum saman sem urðu að dýrmætum minningum án þess að við áttuðum okkur á því fyrr en nú. Skarpi var alveg ótrúlega barngóður og það sem hann varð spenntur þegar systir hans og við áttum von á börnum á sama tíma, en montnari varð hann þegar strákarnir okkar fæddust með þriggja daga millibili. Þá var hann orðinn Skarpi Frændi með stóru f. Við höfum sjaldan hitt nokkurn sem hugsaði eins vel um systur sína og hann, honum þótti alveg óendalega vænt um hana og hans hugsun var ávallt að systir hans, faðir og Aron Logi væru alltaf númer 1, 2 og 3 í hans lífi.

Skarpi var alveg einstaklega góður og skemmtilegur strákur, við höfum oft gantast með það að Skarpi er bara Skarpi og höfðum ekkert meira um það að segja, en það er mikið sannleikskorn í þessu því enginn getur komið í hans stað. Það verður skrítið að geta ekki tekið upp tólið, hringt í hann og spurt hvort hann nenni í bíó eða heimsókn. Það kemur líka alltaf til með að vanta einhvern til að fullkomna brandarann í einkahúmornum okkar sem ekkert allir skildu.

Elsku Skarpi, við eigum eftir að sakna þín meira en orð fá lýst en minning þín mun lifa með okkur um ókomna tíð og þótt okkur finnist ósanngjarnt að þurfa að kveðja þig þegar við erum rétt að hefja lífið er það okkur huggun í sorg okkar að vita til þess að vel er tekið á móti þér.

Elsku Sverrir, Rannveig, Erla Jóna, Andri, Aron Logi og aðrir aðstandendur, megi guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Guð geymi þig, elsku Skarpi.

Þínir vinir,

Sæmundur, Anna og

Sigurður Gísli.

Elsku vinur. Þegar við fengum fregnirnar af sviplegu fráfalli þínu áttum við báðir erfitt með að skilja að þú værir farinn, og eigum enn. Hálft í hvoru eigum við alltaf von á að sjá þig ganga fyrir næsta horn, eða síminn byrji að hringja og númerið þitt birtist á skjánum. Sárast þykir okkur allt það sem við áttum eftir ósagt og gert. Stingurinn fyrir brjóstinu hverfur líklega seint.

Hvert sem við lítum er eitthvað sem minnir okkur á þig, allt það sem við tókum okkur fyrir hendur saman heldur áfram að spilast í höfðinu eins og gömul bíómynd. Pizzakvöldin, bíltúrarnir, bíóferðirnar og allt sem þeim fylgdi. Brandararnir sem við skiptumst á, glottin, prakkarastrikin og hrekkirnir. Brosið og hláturinn sem brutust svo auðveldlega fram munu lifa með okkur áfram. Hlýjan í nærveru þinni var engri lík, þú varst vinur vina þinna, og allra annarra. Hvers manns hugljúfi og alltaf til í að gera allt fyrir alla. Það eru fáir til jafngóðir og þú.

Það er hætta á að sögustundunum fækki eitthvað í vinahópnum núna, þær komu allar frá þér. Hlátrasköllin sem alltaf fylgdu eru okkur sérstaklega minnisstæð. Bíladellan sem alltaf fylgdi þér, og gleðin sem þú fékkst vegna hennar veldur því að við hugsum til þín í hvert skipti sem við setjumst undir stýri.

Þessi stutti tími sem við áttum saman verður okkur alltaf dýrmætur, þú varst og verður okkar kærasti vinur. Við trúum því og treystum að þú sért kominn á betri stað, í fangið á mömmu þinni og Guði. Takk fyrir allt sem þú gafst okkur, gleði, hjálp og vináttu, sem var okkur svo mikils virði.

Þínum nánustu sendum við okkar bestu bænir og samúðarkveðjur. Megi Guð styrkja þau á þessum erfiðu tímum.

Við sjáumst aftur þegar þríeykið hittist á ný.

Þínir vinir,

Ásgeir og Jónatan.

Horfinn er til annarra víðlendna ungur maður sem átti lífið framundan. Það var nú í vor að Skarphéðinn Sverrisson hóf störf hjá Atlantsolíu. Hann hafði allt til brunns að bera sem fyrirtækið leitaði að, létta lund, bros, stundvísi og atorku. Þetta voru hans aðalsmerki auk áhuga hans fyrir að taka þátt í olíudreifingu fyrirtækisins til viðskiptavina. Skarphéðinn féll vel inn í hópinn og er okkur þannig minnisstæður starfsmannadagur þar sem hópurinn gerði sér glaðan dag. Þar áttum við góðar stundir sem búa í huga okkar til minningar um horfinn félaga. Við vottum fjölskyldu Skarphéðins samúð okkar.

Starfsfólk Atlantsolíu.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann alsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni

og nú ertu genginn á guðanna fund,

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingr.)

Amma.