FYRSTA kvöldganga sumarsins í þjóðgarðinum á Þingvöllum verður gengin á morgun, fimmtudagskvöldið 9. júní.

FYRSTA kvöldganga sumarsins í þjóðgarðinum á Þingvöllum verður gengin á morgun, fimmtudagskvöldið 9. júní. Þetta er fimmta árið í röð sem þjóðgarðurinn á Þingvöllum stendur fyrir kvöldgöngum á fimmtudagskvöldum í júní og júlí þar sem fræðimenn og þjóðþekktir áhugamenn um staðinn fjalla um hugðarefni sín tengd Þingvöllum.

Börn verða í hlutverki fornleifafræðinga

Það er Árni Hjartarson jarðfræðingur sem ríður á vaðið að þessu sinni og fjalla um hraun, gjár, jarðskorpuhreyfingar og jarðfræði Þingvallasvæðisins annað kvöld. Árni varði í fyrra doktorsritgerð sína við Kaupmannahafnarháskóla sem fjallar um jarðsögu Skagafjarðar en hann mun í göngunni m.a. beina sjónum gesta að landreki og myndun nýs lands sem óvíða er eins sjáanleg og einmitt á Þingvöllum. Gangan hefst við fræðslumiðstöðina við Hakið, fyrir ofan Almannagjá, og gengið verður að Langastíg.

Einnig verður boðið upp á fornleifaskóla barnanna á Þingvöllum annað árið í röð en skólinn mæltist vel fyrir hjá yngri gestum garðsins í fyrra. Þar verður börnum boðið að reyna fyrir sér í hlutverki fornleifafræðinga, finna muni, skrá þá og teikna. Skólinn verður starfræktur alla sunnudaga yfir sumartímann frá kl. 13-16 í Prestakrók á Neðrivöllum.