Varsjá, Bratislava. AFP, AP.

Varsjá, Bratislava. AFP, AP. | Ýmsir forystumenn í stjórnmálum nýju Evrópusambandsríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu, sem fengu aðild að ESB í fyrra, vilja að "nýja Evrópa", sem svo hefur verið kölluð, taki frumkvæðið og vísi sambandinu leiðina úr þeim ógöngum sem það er nú lent í vegna ákvörðunar kjósenda í Hollandi og Frakklandi að hafna stjórnarskrársáttmála sambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslum.

Forsætisráðherrar tveggja af nýjustu aðildarríkjum Evrópusambandsins, Slóvakíu og Tékklands, hittust á fundi í Bratislava í gær og hvöttu þeir þá til þess að staðfestingarferli vegna stjórnarskrárinnar yrði haldið áfram, þrátt fyrir að Hollendingar og Frakkar hafi hafnað henni í þjóðaratkvæðagreiðslum nýverið.

Ýjaði Jiri Paroubek, forsætisráðherra Tékklands, jafnvel að því að ESB gæti framlengt þann frest sem aðildarríkjunum hefur verið gefinn til að staðfesta sáttmálann en hann rennur út í október 2006.

Stjórnvöld í Hollandi og Frakklandi gætu jafnframt haldið nýjar kosningar ef þau slíkt kysu.

Varaði Paroubek við því að menn lýstu stjórnarskránni sem "dauðu plaggi", slíkar yfirlýsingar væru "ótímabærar og smekklausar".

Pólverjar láti til sín taka

Fréttaskýrendur segja að samstarf Frakka og Þjóðverja á vettvangi ESB - sem ávallt hefur verið þungamiðjan í samrunaferlinu í Evrópu - hafi veikst við atburði undanliðinna vikna, með úrslitum kosninganna í Frakklandi og vandræðunum sem Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, er lentur í á heimavelli, en allt útlit er fyrir að hann hrökklist frá völdum í þingkosningum í haust.

Líta sumir stjórnmálamenn í Mið- og Austur-Evrópuríkjunum svo á að þessar aðstæður gefi þeim tækifæri til að hrifsa til sín frumkvæðið og láta til sín taka á vettvangi ESB.

Pólland er stærst nýju aðildarríkjanna tíu, sem gengu í ESB í fyrra, og hefur Aleksander Kwasniewski forseti þegar lýst því yfir að hann telji ekki koma til greina að hætta við þjóðaratkvæðagreiðslu í landinu um stjórnarskrána þó að Frakkar og Hollendingar séu búnir að hafna henni. "Pólland er of stórt land, of áhrifamikið á vettvangi Evrópumála til að það geri ekki sjálft upp hug sinn varðandi evrópsku stjórnarskrána," sagði Kwasniewski á mánudag, sama dag og bresk stjórnvöld tilkynntu að þau hygðust fresta því að halda atkvæðagreiðslu um málið vegna úrslitanna í Hollandi og Frakklandi.

Og Woldzimierz Cimoszewicz, forseti pólska þingsins, sagði að nýju aðildarríkin - einkum og sér í lagi Pólland - gætu styrkt stöðu sína á meðan þessi vandræði Evrópusambandsins væru að ganga yfir. "Með því að hlutverk Frakka hefur veikst og stjórnarskiptum í Þýskalandi þá gæti verið að umskipti yrðu í Evrópu, þar sem staða Póllands yrði sterkari en áður. En þetta getur aðeins gerst ef Pólverjar segja "já" hátt og snjallt við stjórnarskránni," sagði hann í samtali við AFP .

Ekki hefur verið ákveðið hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram í Póllandi en dagsetningin 9. október hefur verið talin líkleg, sama dag og haldnar verða forsetakosningar í landinu.

Boltinn enn hjá gömlu Evrópu

Í nágrannaríki Póllands, Litháen, heyrast svipaðar raddir. Hvatti Andrius Kubilius, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, til þess að "nýja Evrópa" stýrði ESB út úr þeim ógöngum sem það er nú statt í. "Allt afl og frumkvæði í Evrópu í dag er að finna í "nýju Evrópu", þar eru menn ekki hræddir við breytingar, hafa metnað og eru hungraðir í að ná árangri. Nýja-Evrópa verður að virkja þessa orku og axla ábyrgð á framtíð ESB," sagði Kubilius. "Við getum ekki einfaldlega beðið og vonað að "gamla Evrópa" hugsi upp skynsamleg viðbrögð við þessum alvarlega vanda sem nú steðjar að."

Vill Kubilius að Litháen fylki liði með Pólverjum í þessu skyni, saman eigi löndin að taka frumkvæðið á Evrópuvettvangi.

En ekki eru allir sannfærðir um að þessir draumar séu raunhæfir, sumir telja vafa á að á þessar "nýju raddir" verði hlustað. "Eistland, Litháen og Malta geta sett fram alls konar yfirlýsingar en hversu alvarlega eru þessar þjóðir teknar? Það horfa allir til Brussel eða London," sagði Eiki Berg, stjórnmálafræðingur í Eistlandi. "Boltinn er hjá "gömlu Evrópu", ekki þeirri nýju. Gamla Evrópa lagði grunninn að Evrópusamrunanum og hún stjórnar því enn í hvaða átt Evrópa þróast," bætti hann við.