Eflingarsamningur Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og Jón Jóhannesson, framkvæmdastjóri ProMats, undirrituðu samninginn.
Eflingarsamningur Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og Jón Jóhannesson, framkvæmdastjóri ProMats, undirrituðu samninginn. — Morgunblaðið/Kristján
SKRIFAÐ hefur verið undir Eflingarsamning milli Akureyrarbæjar og Greiningarþjónustunnar Promat ehf., en fyrirtækið tók formlega til starfa í bænum fyrir rúmu ári, í maí 2004.

SKRIFAÐ hefur verið undir Eflingarsamning milli Akureyrarbæjar og Greiningarþjónustunnar Promat ehf., en fyrirtækið tók formlega til starfa í bænum fyrir rúmu ári, í maí 2004. Markmið með Eflingarsamningum Akureyrarbæjar er að styðja við frumkvöðla og fyrirtæki sem hefja starfsemi í nýjum atvinnurekstri í bænum, en þeim er veitt tímabundin aðstoð með samningum við bæjarsjóð m.a. vegna greiðslu lóðar-, orku- og fasteignagjalda. Samningurinn er um 1,5 milljóna króna virði.

Promat hefur frá því á síðastliðnu hausti verið með starfsemi í Sjafnarhúsinu við Austursíðu, en rekstur fyrirtækisins er reistur á grunni starfsemi þjónustusviðs Rannsóknastofu fiskiðnaðarins á Akureyri. Sú starfsemi var lögð niður af samkeppnisástæðum í byrjun síðastliðins árs. Jón Jóhannesson forstöðumaður Promat sagði að framan af hefði starfsemin nær eingöngu byggst upp á þeirri þjónustu sem RF hafi veitt norðan heiða, örverumælingum fyrir matvæla- og fiskvinnslufyrirtæki og aðra sem á slíkri þjónustu þurftu að halda. Jón sagði að fyrirtækið hefði að markmiði að byggja upp starfsemi á sviði hátæknilausna á sviði matvælaframleiðslu og muni leita eftir samstarfi við innlenda jafnt sem erlenda aðila til að geta sem best þjónað markmiðum sínum í þeim efnum.

Stofnendur Promat eru þrír, líftæknifyrirtækið Prokaria, Samherji og Brim. Með samstarfi við Prokaria hefur Promat aðgang að erfðagreiningartækni til nákvæmari greiningar og þróunar á sviði rannsókna fyrir matvælaiðnaðinn. Samstarf fyrirtækjanna tveggja, Promat og Prokaria, hefur þegar skilað einu verkefni sem styrkt er af Líftæknineti í auðlindanýtingu og er vinna við það nú um það bil að hefjast.