Moskvu. AFP. | Rússar ætla innan skamms að hefja útsendingar fréttasjónvarpsstöðvar um gervihnött, í því skyni að miðla afstöðu stjórnvalda í Moskvu til heimsmála og bæta ímynd landsins erlendis, að því er rússneskir fjölmiðlar greindu frá.

Moskvu. AFP. | Rússar ætla innan skamms að hefja útsendingar fréttasjónvarpsstöðvar um gervihnött, í því skyni að miðla afstöðu stjórnvalda í Moskvu til heimsmála og bæta ímynd landsins erlendis, að því er rússneskir fjölmiðlar greindu frá.

Sjónvarpsstöðin mun flytja allt efni sitt á ensku og ganga undir nafninu Rússland í dag (RTTV). Stöðin á að "endurspegla rússneska afstöðu til heimsmála og alþjóðastjórnmála" og "upplýsa áhorfendur um atburði og fyrirbæri í daglegu lífi í Rússlandi," hefur blaðið Vedomosti eftir RIA-Novosti ríkisfréttastofunni sem er helsti bakhjarl nýju stöðvarinnar.

Rússland í dag mun senda út allan sólarhringinn og nást útsendingar stöðvarinnar í Bandaríkjunum, Evrópu, nokkrum Asíulöndum og flestum fyrrverandi Sovétlýðveldum. Stefnt er að því að útsendingar hefjist í haust og verða starfsmenn stöðvarinnar 500, þar á meðal 200 fréttamenn.

Ráðgjafar Pútíns meðal stofnenda

Meðal þeirra sem eiga þátt í að stofna stöðina eru Míkhaíl Lesín, ráðgjafi Pútíns Rússlandsforseta, og Alexei Gromov, blaðafulltrúi Pútíns. Hafa fréttaskýrendur lýst efasemdum um að hin "rússneska CNN", eigi eftir að láta til sín taka á alþjóðlegum fjölmiðlamarkaði. "Allir vita að um stranga ritskoðun verður að ræða," sagði Alexei Volín, fyrrverandi blaðafulltrúi rússneskra stjórnvalda.