Leikmenn Detroit, Ben Wallace og Rasheed Wallace, fagna sigri á Miami í fyrrinótt og meistaratitli í Austurdeild. Þar með er ljóst að Detroit fær möguleika á að verja meistaratitil NBA-deildarinnar sem liðið vann í fyrra í viðureignum við meistara Vesturdeildar, San Antonio Spurs.
Leikmenn Detroit, Ben Wallace og Rasheed Wallace, fagna sigri á Miami í fyrrinótt og meistaratitli í Austurdeild. Þar með er ljóst að Detroit fær möguleika á að verja meistaratitil NBA-deildarinnar sem liðið vann í fyrra í viðureignum við meistara Vesturdeildar, San Antonio Spurs. — Reuters
MEISTARAR Detroit Pistons sýndu enn einu sinni í lokaleik úrslita Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta gegn Miami Heat að aldrei á að afskrifa meistaraliðið í fyrr en það er slegið úr leik.

MEISTARAR Detroit Pistons sýndu enn einu sinni í lokaleik úrslita Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta gegn Miami Heat að aldrei á að afskrifa meistaraliðið í fyrr en það er slegið úr leik. Detroit sótti Miami heim á mánudag og vann í hörkuleik, 88:82, og þar með Austurdeildartitilinn. Detroit mætir San Antonio Spurs í úrslitum NBA-deildarinnar sem hefjast á fimmtudag.

Gunnar Valgeirsson skrifar frá Bandaríkjunum

Leikur liðanna var jafn lengst af, en á lokamínútunni kom leikreynsla Pistons í ljós og yfirvegaður leikur var grunnurinn að sigri liðsins. Þetta var í tíunda skipti í röð í úrslitakeppni sem Pistons vinnur leik þegar tap myndi þýða að það yrði slegið út. Miami náði 3:2 forystu eftir sigur í síðustu viku, en meistararnir sýndu þá styrkleika sinn með tveimur sigrum í röð. Rick Hamilton skoraði 22 stig fyrir Detroit, þar sem jafnræði ríkti að mestu í stigaskorun meðal leikmanna. Liðsheild Detroit er styrkur meistaranna og Larry Brown, þjálfari Detroit, er nú með liðið í úrslitunum annað árið í röð, en framtíð hans hjá liðinu er nokkuð óviss. Brown á við heilsuvandamál að stríða og ef hann nær ekki bata í

sumar mun hann sjálfsagt leggja þjálfun á hilluna. "Við unnum þennan leik eins og fyrsta leikinn í einvíginu, með yfirvegun í lokin. Ég sagði við leikmenn mína að svona tækifæri kæmu ekki oft í fangið á þeim og

við yrðum að njóta þess eins vel og við gætum," sagði Brown í leikslok.

Miami má vel við una, þótt erfitt sé að hugsa til þess eftir svo slæmt tap. Shaquille O'Neal skoraði 27 stig fyrir Heat, en Miami tapaði einvíginu fyrst og fremst þegar Dwyane Wade meiddist í fjórða leik liðanna. Samherjar hans kláruðu þann leik, en Wade lék ekki í sjötta leiknum sem var stórtap og í leiknum á mánudag barðist hann hetjulega þótt hann gæti augljóslega ekki beitt sér að fullu. "Allir samherjar mínir hefðu gert það sem ég gerði í kvöld, en því miður klúðruðum við of mörgum tækifærum í lokin og því fór sem fór," sagði Wade vonsvikinn í leikslok.